Ólafur Arnalds tónlistarmaður birtir varnaðarorð til erlendra ferðamanna á Twitter síðu sinni og hvetur þá til að sniðganga græðgi íslenskra kaupmanna. Verið sé að hafa þá að féþúfu.
„Kæru vinir sem ætlið að heimsækja litlu eyjuna mína. Gerið það fyrir mig, ekki kaupa þetta drasl,“
ritar Ólafur í færslunni og bendir ferðamönnum síðan réttilega á að með því að kaupa íslenskt kranavatn úr búð þá séu þeir í raun að kaupa gagnlaust plast.
„Þetta eru bellibrögð til að hafa peninga af ferðamönnum og hefur þar að auki í för með sér aukna sóun á plasti. Við hreykjum okkur af kranavatninu okkar.“
Hátt í 60 þúsund manns fylgja Ólafi á Twitter og hafa viðbrögðin við skrifunum ekki látið á sér standa en rúmlega 1600 manns hafa líkað við færsluna.