Svo gæti farið að heimsmet yfir lengstu samfelldu millilandaflugferðina verði brátt slegið. Lengsta flugferðin sem ferðalöngum stendur til boða er á milli Auckland í Nýja-Sjálandi til Doha í Katar en ferðin tekur heilar 18 klukkustundir. Vegalengdin er um 15 þúsund kílómetrar.
Þar á eftir kemur flugið á milli Perth í Ástralíu til London á Englandi, en ferðin tekur um 17 klukkustundir.
Nú gæti nýtt met verið í fæðingu því Singapore Airlines mun brátt taka í notkun nýja þotu frá Airbus, A350-900, en drægni vélarinnar er tæpir 18 þúsund kílómetrar. Verður Singapore Airlines fyrsta flugfélagið sem fær vélina afhenta og hún mun nýtast félaginu vel, ef marka má áætlanir félagsins.
Flugfélagið hyggst nota vélina til að fljúga beint á milli Singapore og New York í Bandaríkjunum, en ferðin tekur um 19 klukkustundir og vegalengdin er 15.323 kílómetrar.
Félagið hyggst taka fyrstu vélina í notkun fyrir árslok en Singapore Airlines hefur þegar pantað sjö slíkar vélar. Auk þess að fljúga til New York mun félagið nota vél undir flug til Los Angeles á næsta ári, en það mun taka um 15 klukkustundir.