Það er nýr forseti landsins, Cyril Ramaphosa, sem verður nú að sýna og sanna að hann geti barist gegn spillingu, hrundið endurbótum á landeignarreglum í framkvæmd, náð stjórn á efnahagsmálunum og laðað erlenda fjárfesta til landsins. Það væri kannski rökréttast að gera þetta eitt af öðru en hann neyðist til að gera þetta allt í einu ef ANC (flokkurinn sem fer með stjórnartaumana í landinu) á að eiga einhverja von um að endurvinna traust kjósenda og halda völdum að loknum kosningum á næsta ári.
Verkefnið er síður en svo auðvelt enda eru margir þeirra sem eru grunaðir um spillingu félagar í ANC og ekki eru allir reiðubúnir til að leyfa forsetanum að taka til, til þess eru alltof miklir hagsmunir í húfi. Mikil valdabarátta á sér stað innan ANC þrátt fyrir auknar vinsældir Ramaphosas meðal almennings.
Jacob Zuma, fyrrum forseti, er grunaður um að hafa verið stórtækur í að hygla vinum og ættingjum á kostnað ríkisins og að hafa sjálfur þegið mútur. Hann var settur af sem forseti í febrúar. Zuma heldur fram sakleysi sínu og reynir stöðugt að grafa undan Ramaphosa.