Í fangelsinu dvelja hættulegustu morðingjar og kynferðisafbrotamenn Danmerkur. Allir 150 fangarnir hafa hlotið mjög þunga dóma eða verið dæmdir til ótímabundinnar vistunar. Þeir fá nær allir þjónustu geðlækna á meðan þeir afplána dóma sína.
BT segir að samkvæmt nýjustu tölum þá afpláni nú 49 dóma fyrir morð í fangelsinu, þar á meðal fyrir morð á börnum. 53 afplána fyrir nauðganir eða nauðgunartilraunir. 21 afplánar fyrir ofbeldisverk og 39 fyrir ýmis önnur brot.
Í fangelsinu eru þekktustu fangarnir Amagermaðurinn svokallaði og Peter Lundin, sem var dæmdur fyrir morðið á Marianne Pedersen og tveimur sonum hennar auk þess sem hann hafði áður hlotið dóm fyrir að hafa myrt móður sína í Bandaríkjunum, en þeir afplána báðir ævilanga dóma. 95 prósent fanganna eru karlar.
Í fangelsinu er dagurinn í föstum skorðum. Fangarnir eru læstir inni í klefum sínum frá 21.15 til 7. Klukkan 7.30 eiga þeir að mæta til vinnu.
Madsen mun geta haldið áfram að skrifa bókina sem hann er að sögn að skrifa. Hann mun einnig geta sótt námskeið sem í boði eru.
Þegar kemur að hádegismatnum sjá fangarnir um að elda hann í sameiningu. Klukkan 15 lýkur vinnudeginum og þá geta fangarnir farið í fótbolta, badminton eða líkamsrækt. Þeir geta einnig heimsótt hvern annan.
Í klefum þeirra er rúm, skrifborð, skápur og sjónvarp. Fangarnir hafa takmarkaðan aðgang að internetinu og engan aðgang að samfélagsmiðlum. Þeir mega hringja í 10 manns en mega senda eins mörg bréf og þeir vilja. Þá geta fangarnir leigt leikjatölvur og geisladiskaspilara. Einu sinni í viku eiga fangarnir rétt á að fá heimsókn í minnst eina klukkustund. Þessar heimsóknir fara fram í heimsóknarrými fangelsisins eða í sérstakri heimsóknaríbúð sem er á lóð fangelsisins. Fangarnir eiga rétt á útiveru í minnst eina klukkustund á dag.
BT skýrði frá þessu um helgina og í framhaldinu spunnust heitar umræður á samfélagsmiðlum um lífið í fangelsinu. Mörgum þykir sem Madsen muni geta lifað alltof góðu lífi í fangelsinu og að hans bíði betra líf en ellilífeyrisþegar geti vænst. Þeir fái ekki aðstoð við að fara út og fá frískt loft, þeir lifi ekki eins fjölbreyttu lífi og fangarnir. Einn lesandi benti á að nær væri að taka bandarísk fangelsi til fyrirmyndar.