Óhætt er að segja að söguleg stund hafi orðið á Kóreuskaga í nótt þegar Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, og Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, tókust í hendur og ræddu um afvopnum kjarnavopna.
Grunnt hefur verið á því góða á milli Norður- og Suður-Kóreu undanfarin misseri og um tíma leit jafnvel út að stríð væri að fara brjótast út á milli nágrannaþjóðanna.
Kim og Moon hittust á hlutlausu svæði á landamærum ríkjanna í nótt að íslenskum tíma. Leiðtogarnir tókust í hendur og ræddu um mikilvægi þess að friður ríkti á Kóreuskaga. Var það táknræn stund þegar Kim bauð Moon að stíga yfir landamærin til Norður-Kóreu sem sá síðarnefndi þáði.
Leiðtogarnir ræddu einnig mikilvægi þess að bæta samskipti ríkjanna; báðir lýstu áhuga á því að hittast aftur. Að fundi loknum sagði Moon að um mjög góðan og gagnlegan fund hafi verið að ræða.
Undir lok fundarins skrifuðu leiðtogarnir undir yfirlýsingu þar sem kveðið er á um afkjarnavopnavæðinu, endanleg lok Kóreustríðsins og það markmið að sameina sundraðar fjölskyldur milli ríkjanna.