„Þær eru þarna að leika sér í sakleysi þegar að tvær eldri stelpur koma að þeim og segir þeim að koma sér burtu af skólalóðinni og þær megi ekki leika sér þarna af því að þær eru ekki í Fellaskóla,“ segir Birna Fahning móðir átta ára gamallar stúlku en hún segir dóttur sína hafa orðið fyrir árás eldri stúlku á skólalóðinni við Fellaskóla síðastliðinn mánudag. Hún hefur tilkynnt atvikið til lögreglu.
Að sögn Birnu var dóttir hennar að leika sér á Fellaskólalóðinni ásamt vinkonu sinni á milli klukkan þrjú og fjögur á mánudag. Hún segir dóttur sína og vinkonu hennar báðar vera frekar litlar og smáar miðað við aldur en báðar eru þær á níunda ári. Tvær eldri stúlkur hafi þá nálgast þær og gerir Birna ráð fyrir að þær séu á milli 10 og 11 ára gamlar. Að sögn dóttur Birnu töluðu stúlkurnar bæði íslensku og annað erlent tungumál.
Birna segir að eftir að dóttir hennar hafi neitað að yfirgefa skólalóðina hafi eldri stúlkurnar tvær ráðist á hana og vinkonu hennar. Vinkonan hafi náð að koma sér frá á undan dóttur hennar en þá hafi önnur stúlknanna kýlt dóttur hennar.
„Afleiðingarnar voru þær að hún fékk blóðnasir og síðan kýlir stelpan hana aftur og sprengir á henni vörina. Síðan fer dóttir mín uppá hjólið sitt til að flýja og þá sparkar þessi sama stúlka í afturdekkið á hjólinu með þeim afleiðingum að dóttir mín dettur af hjólinu og meiðir sig á fætinum. Þá kemur stúlkan að henni aftur og sparkar í rifbeinin á henni liggjandi.“
Birna segir dóttur sína hafa því næst náð að koma sér undan og hjóla heim.
„Þannig að núna er litla átta ára stelpan mín er með sprungna vör, hölt og með mar á rifbeini á vinstri síðunni.“
Birna kveðst hafa rætt við lögregluna í gærmorgun og verið ráðlagt að fá útvega áverkavottorð. Hún hefur jafnramt tilkynnt aðstoðarskólastjóra Fellaskóla um málið.
Birna vakti athygli á atvikinu í Facebook-hópi fyrir íbúa í Breiðholti og spurðist um leið fyrir um hvort myndavélar væru á Fellaskólalóðinni svo hægt væri að bera kennsl á stúlkurnar tvær. Hún segir viðbrögð sumra meðlima hópsins hafa komið sér í opna skjöldu og hafi sumir þeirra litið á innlegg hennar sem árás á hverfið og skólann. Það sé hins vegar mesti misskilningur.
„Þetta er bara hrikalega leiðinlegt mál og er ég ekki að benda á einn né neinn. Ég vil bara finna út úr því hvað hægt sé að gera í svona máli og að fleiri börn lenda ekki í ofbeldi af völdum annarra barna fyrir að vera úr skóla úr öðru hverfi.“