fbpx
Miðvikudagur 05.nóvember 2025
Eyjan

Gamalgróið miðbæjarfyrirtæki kveður

Egill Helgason
Laugardaginn 17. mars 2018 12:24

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það voru ákveðin tímamót í miðbænum í gær þegar var síðasti starfsdagur hjá Bólstrun Ásgríms í Bergstaðastræti 2. Þetta er eitt af gömlu fyrirtækjunum í miðborginni, hefur verið í húsinu um áratuga skeið.

 

 

Egill Ásgrímsson sem hefur staðið vaktina í bólstruninni í sextíu ár hverfur nú úr bænum ásamt Sirrý konu sinni – þau eru skemmtilegt fólk og alúðlegt og það hefur lengi verið gestkvæmt í húsinu hjá þeim, margir sem líta við og spjalla. Sirrý, sem heitir fullu nafni Sigríður Lútersdóttir, var í eina tið afrekskona í handbolta og lék marga landsleiki fyrir Íslands hönd.

Húsið gamla í Bergstaðastræti á merkilega en dálítið brogaða sögu. Þórbergur Þórðarsson bjó um tíma í herbergi á loftinu, að sögn Egils. Þarna var eitt sinn fiskbúð. Svo var rekið spilavíti í kjallaranum og þar var líka bruggað. Ekki var sú starfsemi öllum til ánægju, þau hjónin segja sögu af gömlum manni sem kom þangað eitt sinn og litaðist um, var að gera upp við vondar minningar sem hann átti frá  því að hafa sótt föður sinn í þetta greni.

Það hefur verið geysilega mikið verk að flytja úr húsinu, allar hirslur voru yfirfullar af dóti eftir langan starfstíma. En eitt af því sem ég kom auga á í kveðjuboði sem Egill og Sirrý héldu í gær var þetta viðurkenningarskjal. Það er frá þýsku handverkssýningunni 1961 og er veitt Friðriki Þorsteinssyni og Ásgrími P. Lúðvíkssyni, föður Egils, fyrir smíði á leðurstól. Um hann má fræðast frekar með því að lesa þessa grein í Morgunblaðinu.

 

 

Á þessum árum var öðruvísi umhorfs í gamla bænum, þeir tímar koma ekki aftur. Nú verður húsið að Bergstaðastræti væntanlega lagt undir einhverja starfsemi sem tengist ferðamennsku eða veitingarekstri, en þá var alls konar iðnaður og handverk í miðborginni. Á horninu fyrir neðan er stórhýsi kennt við Kristján Siggeirsson. Þar voru smíðuð húsgögn í stórum stíl, heima hja mér var í æsku sófasett frá fyrirtækinu, þar var svo húðvandað að hrikti aldrei í  þrátt fyrir áratuga notkun. En því var fargað á endanum og eftirsjá að því – þetta voru fallegar og stílhreinar mublur sem stóðust tímans tönn.

En svona iðnaður átti ekki séns eftir að viðskiptahöftum var aflétt, líkt og var um fataiðnað lagðist húsgagnasmíðin að miklu leyti af eftir EFTA-samninginn sem Íslendingar gerðust aðilar að 1970.

 

Egill og Sirrý. Myndina tók dóttir þeirra Þórunn Egilsdóttir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Orðið á götunni: Svona gerir maður ekki

Orðið á götunni: Svona gerir maður ekki
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Fjármál ríkislögreglustjóra: Ítrekuð umframkeyrsla og hallarekstur – verktakagreiðslur hlaupa á milljörðum

Fjármál ríkislögreglustjóra: Ítrekuð umframkeyrsla og hallarekstur – verktakagreiðslur hlaupa á milljörðum
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Svarthöfði skrifar: Mogginn vill leiðrétta mannréttindabrot en bara „hóflega“

Svarthöfði skrifar: Mogginn vill leiðrétta mannréttindabrot en bara „hóflega“
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sorg þeirra er okkar sorg

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sorg þeirra er okkar sorg
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Glæsilegur dagur íslenskra kvenna – baráttunni fyrir frelsi og réttlæti lýkur aldrei

Svarthöfði skrifar: Glæsilegur dagur íslenskra kvenna – baráttunni fyrir frelsi og réttlæti lýkur aldrei
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Laxness á náttborðinu

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Laxness á náttborðinu