Miðflokkurinn segir að hægt sé að taka 130 milljarða króna úr bankakerfinu til að nota til uppbyggingu innviða. Minnka eigi bankana og þar með lækka vexti og gjöld. Þetta kom fram í máli Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur oddvita flokksins í Reykjavík norður á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Sjálfstæðisflokkurinn hefur boðað svipaða áætlun, en þar er gert ráð fyrir rúmlega 100 milljörðum króna sem taka eigi úr bankakerfinu og nýta til uppbyggingu innviða.
Guðfinna segir það nauðsynlegt fyrir ríkið að nýta forkaupsrétt sinn og eignast Arion banka, þá sé hægt að endurskipuleggja fjármálakerfið í heild:
Allir allir bankarnir eru komnir í eigu ríkisins er hægt að minnka bankana,
segir Guðfinna. Stefna Miðflokksins sé að ríkið muni eiga þriðjung í Arion banka til frambúðar, þriðjungur fari á markað og þriðjungur verði færður landsmönnum til eignar. Landsbankinn verði í eigu ríkisins og Íslandsbanki verði seldur erlendum banka. Þá muni einnig skapast svigrúm til afnáms verðtryggingar á lánum. Vill flokkurinn einnig endurskoða lífeyrissjóðakerfið:
Lífeyrissjóðirnir eru orðnir allt of stórir og nú þurfa þeir að flytja að heiman. Þeir þurfa að fara að fjárfesta í nýsköpun og fjárfesta erlendis. Í dag eru lífeyrissjóðirnir að fjárfesta hér á landi, þeir eru að kaupa hver af öðrum þannig að verðið hækkar og það myndast bóla sem getur sprungið.