Illugi Jökulsson, rithöfundur og fyrrverandi ritstjóri, veltir upp þeirri spurningu á Facebook-síðu sinni hvort orðalag Bjarna Benediktssonar í viðtali við Jóhann Bjarna Kolbeinsson, fréttamann á RÚV, gefi mögulega til kynna að Bjarni hafi vitað að sýslumaður hygðist setja lögbann á fréttaflutning Stundarinnar.
Jóhann Bjarni svarar sjálfur í athugasemd við færslu Illuga og segir þetta réttmæta athugasemd hjá Illuga.
llugi segir að viðtalið hafi verið prýðilegt og að Jóhann Bjarni hafi spurt réttu spurningarnar. Hann gerir þó athugasemd við að Jóhann Bjarni hafi ekki spurt frekar um vitneskju Bjarna um aðgerðir Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.
„En einn feil gerði Jóhann Bjarni, frekar slæman. Hann spurði hvort Bjarni hefði vitað af aðgerðum sýslumanns fyrirfram. Þá kom greinilegt hik á Bjarna en hann svaraði: „Ég get ekki sagt það.“ – Því miður spurði Jóhann Bjarni ekki út í þetta sérkennilega svar. Hvað þýðir það? Vissi Bjarni ekki alveg hvað stóð til en hafði nasasjón af einhverju?,“ spyr Illugi. Hér má sjá umrætt viðtal.
Illugi segir að þetta svar Bjarna hafi krafist frekari skýringar. „Þetta er mjög furðulegt og gerir eiginlega stöðu Bjarna verri en áður ef eitthvað er. Hann verður alla vega að skýra þetta. Núna getur hann ekki lengur sagt bara „Nei, ég vissi ekki neitt“. Hann er búinn að gefa hið óljósa svar. Það stendur og það verður að minnsta kosti að skýra. Af hverju tók hann svona til orða? Hafði forsætisráðherra einhverja eða einhvers konar nasasjón af því sem í vændum var?,“ spyr Illugi.
Jóhann Bjarni svarar Illuga og segir: „Svar Bjarna var að vísu „Ég get ekki sagt það, nei.“ En þetta er vissulega óskýrt orðalag og ég hefði mátt spyrja hann betur út í þetta. Réttmæt athugasemd.“