Hér eru tvö bréf sem mér bárust í dag um Downingstrætisdónann, Gordon Brown, og dæmalaus ummæli hans í breska þinginu um Íslendinga.
— — —
„Ég las innskot þitt um ummæli Brown á breska þinginu varðandi fyrirspurn um innistæðureikning sem ekki hafði fengist greiddur. Þetta mál virðist vera mjög stórt mál á Bretlandi – enda um að ræða 6,5 milljón punda innistæðu krabbameinssjóðs breska sjúkrahússins Christie´s í Manchester. En það sem gleymdist í frétt Vísis var að þessa innistæða var í bankanum Kaupthing Singer & Friedlander. Minn skilningur er sá að breskir eftirlitsaðilar hafi borið ábyrgð á Kaupthing Singer & Friedlander – ekki íslensk yfirvöld. Í fyrirspurnartímanum skellir Brown skuldinni á íslensk yfirvöld og segist vera að vinna með IMF í að tryggja endurgreiðslur frá okkur Íslendingum. Þetta mál er funheitt í Bretlandi þar hafa 50 þús manns undiritað kröfu um að þessi innistæða verði greidd tilbaka til Krabbameinssjóðsins. Í breskum blöðum er talað um ÍSLENSKA BANKANN Kaupthing Singer & Friedlander og reiði Breta beinist að okkar yfirvöldum. Þetta er náttúrlega skelfilegt PR klúður ef að við látum Brown núna skella skuldinni af Kaupthing Singer & Friedlander á okkar herðar og raunar grafalvarlegt milliríkjamál ef að forsætisráðherra Breta fer með slíkar fleipur og breska þinginu.“
— — —
„Ummæli Gordon Brown eru einkar ósmekkleg í ljósi þess að sá velgerðarsjóður í Manchester sem ýtti umræðum af stað í breska þinginu var í viðskiptum hjá Singer & Friedlander bankanum (sem vissulega var í eigu Kaupþings) en sá banki starfaði samkvæmt leyfum og undir eftirliti FSA í Bretlandi, borgaði skatta í Bretlandi og er því á ábyrgð breska ríkisins og breska tryggingsjóðsins. Af þeim ástæðum hafa endurgreiðslur til velferðarsjóðsins ekkert með samskiptin við Ísland að gera, ekkert með íslenska tryggingasjóði að gera, ekkert með Icesave að gera og ekkert með viðræður Íslendinga og Breta að gera. Brown var að reyna að skýla sér og vangerð breskra stjórnvalda gagnvart þessum sjóði með því að blása í glóðir andúðar gegn Íslendingum.“