fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Eyjan

Skuldir heimilanna, grein eftir Gunnar Tómasson

Egill Helgason
Laugardaginn 2. maí 2009 15:36

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gunnar Tómasson hagfræðingur sendi mér þetta bréf.

— — —

Sæll Egill.

Ef ég skil rétt, þá eiga Nýju bankarnir eftir að semja við kröfuhafa Gömlu bankana um yfirtökuverð á skuldum heimilanna sem flytjast úr Gömlu bönkunum í Nýju bankana.  Umsamið yfirtökuverð hlýtur að taka mið af greiðslugetu einstakra skuldara, því ella myndu Nýju bankarnir taka á sig afskriftir af húsnæðislánum á komandi tíð sem með réttu hefðu átt að endurspeglast í umsömdu yfirtökuverði.

Við úrlausn greiðsluerfiðleika í Bandaríkjunum er árleg greiðslugeta einstakra skuldara vegna húsnæðislána metin á 31% af vergum tekjum þeirra.  Yfirtökuverð sem er umfram greiðslugetu jafngildir niðurgreiðslu heimila landsins á fyrirsjáanlegu tapi kröfuhafa Gömlu bankanna.  Slíkt samrýmist hvorki markaðslögmálum né skyldu stjórnvalda gagnvart almannahag.  Það er því eðlileg og réttmæt krafa að raunhæfur mælikvarði á greiðslugetu einstakra skuldara sé lagður til grundvallar umsömdu yfirtökuverði Nýju bankanna á skuldum heimilanna.

Greiðslugeta ræðst ekki einungis af vergum tekjum skuldara heldur einnig af vaxtakjörum og lánstíma.  Það er hagur kröfuhafa Gömlu bankana að framtíðarvextir á yfirteknum lánum séu sem lægstir (til að hámarka núvirði einstakra lána) og lánstími sem lengstur.  Eðlilegast er að lánstími haldist óbreyttur og að Nýju bankarnir breyti vaxtakröfum á niðurfærðum höfuðstól húsnæðislána í samræmi við þá framtíðarvexti sem yfirtökuverðið miðast við.

Ég fjallaði nánar um ákjósanlega aðferðafræði við yfirtöku Nýju bankanna á völdum eignum Gömlu bankanna í grein minni í Fréttablaðinu 29. apríl sl. (‘Fortíðarvandi nýju bankanna’):

Mestur hluti útlána íslenzku bankanna í lok september 2008 var fjármagnaður með erlendum lánum.  Bankarnir voru því milliliðir erlendra fagfjárfesta og lántakenda innanlands og utan.  Í septemberlok voru almenn innlán í krónum um 1300 milljarðar eða um 8.4% af 14.000 milljarða heildarskuldum bankanna.  Þar af voru innlendar skuldir liðlega 3500 milljarðar og erlendar skuldir rúmir 10.300 milljarðar.

Áætlanir um endurreisn bankakerfisins hafa frá upphafi byggt á þeirri hugmynd að Nýir bankar tækju yfir hluta af eignum og skuldum Gömlu bankanna.  Nýju bankarnir myndu síðan veita atvinnulífi og heimilum landsins almenna  bankaþjónustu en láta skilanefndum Gömlu bankanna eftir uppgjör þrotabúa þeirra.  Eins og Jón Gunnar Jónsson bankamaður hefur nýlega bent á er mikilvægt að aðferðafræðin við uppstokkun bankakerfisins miði fyrst og fremst að því að Nýju bankarnir verðskuldi fullt traust markaðsaðila innanlands og utan í kjölfar endurreisnarinnar.  Það verður bezt tryggt með því að 1300 milljarða innlánin verði yfirtekin af Nýju bönkunum ásamt samsvarandi hluta (vafasamra) eigna Gömlu bankanna á niðurfærðu verði sem samið yrði um við kröfuhafa Gömlu bankanna.  Í þessu sambandi hefur komið fram að matsfyrirtækin Deloitte og Oliver Wyman hafa verðmetið eignasafn Gömlu bankanna á forsendum sem taka ekki mið af breyttum horfum í efnahagsmálum heims frá sl. hausti.  Það er hins vegar áríðandi fyrir trúverðugleika Nýju bankanna á komandi tíð að umsamið verð á yfirteknum eignum Gömlu bankanna sé ekki umfram raunhæft markaðsvirði þeirra.

Áreiðanlegar upplýsingar vantar um skuldir sjávarútvegsfyrirtækja við Gömlu bankana, sem fjármálaráðherra sagði á Alþingi 5. marz sl. að væru þrefaldar eða fjórfaldar árstekjur sjávarútvegs.  Vaxtakostnaður einn og sér jafngildir því stórum hluta ársteknanna.  Það væru því alvarleg mistök sem myndu flækja endurreisn bankakerfisins ef fortíðarvandi/skuldir sjávarútvegs væru fluttar í Nýju bankana. Samkvæmt íslenzkum lögum er úthlutaður kvóti ekki varanleg eign einstakra kvótahafa. Þeir erlendu kröfuhafar sem lánað hafa íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum fjármagn gegn veðum í slíkum kvóta taka með því áhættu sem er á þeirra eigin ábyrgð.

Kær kveðja,

Gunnar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Flokkurinn sem yfirgaf sjálfan sig

Sigmundur Ernir skrifar: Flokkurinn sem yfirgaf sjálfan sig
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki