Ég er nógu gamall til að vera af kynslóð Íslendinga sem komst í mikla snertingu við Íslandsklukkuna. Verkið var leikið reglulega á sviði Þjóðleikhússins fyrstu áratugi þess. Þegar ég var drengur sá ég Róbert Arnfinnsson leika Jón Hreggviðsson.
Fáum árum áður gaf Fálkinn Íslandsklukkuna út á þremur hljómplötum í rauðri öskju sem rataði inn á mörg heimili. Þar gat maður heyrt sjálfan Brynjólf Jóhannesson í hlutverki Jóns, Þorstein Ö. Stephensen sem Arnas Arnaeus og Herdísi Þorvaldsdóttur sem Snæfríði Íslandssól. Þetta var hópurinn sem lék í fyrstu uppfærslu Íslandsklukkunnar þegar Þjóðleikhúsið var opnað 1950.
Ég hlustaði á þetta fram og til baka, og lærði margar replikkurnar utanbókar. Það voru einkum Jón Hreggviðsson sjálfur, Jón Marteinsson og Jón Grindvíkingur sem mér þóttu skemmtilegir. Og bruninn var hræðilega sorglegur – þegar handritin fuðra upp.
Seinna fór mér að þykja fyllerí Magnúsar í Bræðratungu kostulegt, en enn finnst mér að Halldóri hafi ekki tekist að gera skemmtilega persónu úr Árna Magnússyni. Það vakti áthygli á sínum tíma þegar Eiríkur Jónsson, höfundur bókarinnar Rætur Íslandsklukkunnar, benti á að Snæfríður Íslandssól væri mjög lík Scarlett O’Hara úr Gone With the Wind. Það er erfitt að mæla því mót. Persónur þeirra eru nauðalíkar.
Bækurnar voru líka til í frumútgáfum heima, með geysifallegum kápumyndum. Þessar bækur eru ennþá upp í hillum hjá mér, þrjú bindi: Íslandsklukkan, Hið ljósa man og Eldur í Kaupinhafn, gefin út á árunum 1943 til 1946.
Margir höfðu tilheigingu til að líta á Halldór Laxness sem átorítet um alla hluti, af því hann var svo góður rithöfundur. Þannig höfðu margir og hafa enn tilsvör úr Íslandsklukkunni á hraðbergi í pólitískum umræðum.
Halldór tekur hins vegar sjálfur fram fremst í fyrsta bindinu:
„Höfundur vill láta þess getið að bókin er ekki „sagnfræðileg skáldsaga“, heldur lúta persónur hennar, atburðir og stíll einvörðungu lögmálum verksins sjálfs.“
Hann áréttar þetta fremst í þriðja bindinu:
„Eins og í tveim fyrri bókum er „sagnfræðin“ einnig í þessari beygð undir lögmál skáldverksins.“
Margir hafa hneigst til þess að lesa Íslandsklukkuna sem einhvers konar sannleika um Ísland, sögu lands og þjóðar. Og jú, þarna eru ágætar lýsingar á eymd Íslendinga en líka þolgæði.
Ein meginkenning bókarinnar er að Danmörk, Kaupmannahöfn og hallir þar hafi byggst upp af auði sem kom ofan af Íslandi. Það er náttúrlega ekkert annað en vitleysa. Ísland var ekki uppspretta neins slíks auðs á þessum tíma – enda voru stopular skipaferðir hingað og landsmenn bláfátækir. Seinni tíma rannsóknir hafa líka sýnt að það voru ekki síst íslenskir bændur sem kúguðu alþýðu manna; í raun bera danskir nýlenduherrar þar oftlega minni sök en innlend yfirstétt.
Hugsanlega vissi Halldór þetta líka – eins og sést á fyrirvörunum um sagnfræði verksins. Halldór skrifaði margt ansi gott um sagnfræði og bókmenntir, ritgerðir hans eru sumar framúrskarandi góðar, og þar verður þessara hugmynda sem hann notar svo skáldlega í Íslandsklukkunni lítt vart.
Herdís Þorvaldsdóttir og Brynjólfur Jóhannesson í fyrstu uppfærslu Íslandsklukkunnar við opnun Þjóðleikhússins 1950. Snæfríður leysir Jón Hreggviðsson sem flýr burt og kemst á skip.
Kápumynd þriðja bindisins frá 1946. Eftir hvern er hún?