Sumarið 1996 sat ég eitt kvöld inni á Kaffibarnum – sem oftar – þannig var það í þá daga.
Þetta var dálítið merkileg kvöldstund. Þarna runnu saman 101 Reykjavík og Cool Britannia sem þá var mikið talað um.
Á barnum voru hljómsveitirnar Blur og Pulp.
Blur með Damon Albarn í fararbroddi og Pulp með Jarvis Cocker. Í kringum sveitirnar var einhver slæðingur af íslenskum stúlkum, sumar sátu á hnjám hljómsveitarmeðlima, en annars var ekki fjölmennt, enda var þetta sunnudagskvöld.
Þá gengu inn tveir menn og sungu ættjarðarlög hástöfum: Íslands farsælda frón og þvíumlíkt. Rokkararnir eiginlega þögnuðu og náðu ekki upp fjörinu aftur. Stúlkurnar horfðu ráðvilltar í kringum sig að vera minntar svona á gamla landið.
Þetta voru Mörður Árnason og Karl Th. Birgisson. Þeir voru að fagna því að fóstri þeirra, Ólafur Ragnar Grímsson, hafði verið kosinn forseti.
Ég man ekki eftir að neinn annar á staðnum hafi fagnað því.
Nu tínast gömlu vinirnir af Ólafi Ragnari. Meira að segja Einar Karl segist ekki hafa vitað hvað vakti fyrir honum, Gisli Gunnarsson segist varla styðja hann lengur hér í athugasemdum, Össur vill ekki fara með honum til Indlands – og kannski liggja ættjarðarlögin Kalla og Merði ekki jafn létt á tungu og þessa glöðu kvöldstund.