
Kristín Marja Baldursdóttir verður gestur í Kiljunni annað kvöld. Hún er að senda frá sér nýja skáldsögu sem nefnist Kantata. Kristín er með vinsælustu höfundum á Íslandi – og reyndar ná vinsældir hennar langt út fyrir landsteinana. Fáir íslenskir höfundar selja fleiri bækur erlendis en hún.
Við hittum Bjarna Harðarson spölkorn fyrir austan Þjórsá og ræðum við hann um bókina Mensalder. Söguhetja hennar er kotkarl sem þar bjó, átti í basli með konur, fyrst móður sína og svo sambýliskonu, þetta er dæmi um það hvernig gamlir búskaparhættir lifðu langt fram á tuttugustu öld.
Við förum svo í göngutúr í Vesturbænum með skáldinu Óskari Árna Óskarssyni. Óskar nýtur mikillar virðingar fyrir ljóð sín og prósaskrif, en hann hefur ekki verið mikið í fjölmiðlum. Ný ljóðabók eftir hann nefnist Kuðungasafnið.
Gagnrýnendur þáttarins fjalla um nýjar bækur eftir Gyrði Elíasson og Guðberg Bergsson.
Og Bragi talar einmitt um áðurnefndan Guðberg sem varð áttræður fyrir stuttu.