
Fækkun ráðuneyta hefur lengi verið á döfinni á Íslandi. Ráðuneytin hafa þótt of smá og veikburða. Sum hafa verið alltof höll undir sérhagsmunahópa. Á ríkisráðsfundi í dag verður gengið frá því að ráðherrar verði átta talsins – oft hafa þeir verið tólf, það hefur sjaldnast helgast af nauðsyn heldur er fjöldinn tilkominn vegna þessa að margir eru að keppast um stólana innan stjórnmálaflokkanna.
Nú láta sumir eins og þessi fækkun ráðuneyta hafi eitthvað með ESB aðild eða Jón Bjarnason að gera – þar er vísvitandi verið að smætta pólitíska umræðu til að ná fram spunaáhrifum.
Það er kveðið á um fækkun ráðuneyta í stjórnarsáttmálanum – og það er í raun samhljóða stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins frá því fyrir kosningarnar 2007, en þar sagði:
„Sjálfstæðisflokkurinn telur brýnt að fækka ráðuneytum enda væri hagræðing í efsta lagi stjórnsýslunnar öðrum stofnunum, sem neðar eru, gott fordæmi. Auðvelt væri að fækka ráðuneytum töluvert, t.d. með sameiningu í eitt atvinnuvegaráðuneyti og eitt velferðarráðuneyti. Samhliða endurskoðun ráðuneyta verði farið yfir hlutverk einstakra ríkisstofnana.“
Þetta er líka eitt af gömlum hjartans málum Morgunblaðsins, í leiðara frá árinu 2005 segir meðal annars – líklegt er að Styrmir Gunnarsson sé höfundur textans:
„Morgunblaðið hefur tekið undir hugmyndir um fækkun ráðuneyta. Að steypa atvinnuvegaráðuneytum saman í eitt er t.d. ekki annað en rökrétt afleiðing þess að afskipti hins opinbera af atvinnulífinu hafa minnkað stórlega. Ætla verður að slík sameining myndi leiða til sparnaðar í stjórnsýslunni, ekki sízt í yfirstjórn ráðuneytanna.“
Í grein sem er vitnað í hér efst er því haldið fram að samhliða fækkun ráðuneyta séu í gangi „hreinsanir meðal embættismanna“. En svona aðgerðir hljóta náttúrlega að leiða af sér breytingar á högum þeirra. Kerfið er jú ekki til fyrir embættismennina – enda segir beinlínis í Morgunblaðsleiðaranum hér að ofan að æskilegt sé að sameining leiði til „sparnaðar í stjórnsýslunni, ekki síst í yfirstjórn ráðuneytanna“.