fbpx
Miðvikudagur 17.desember 2025
Eyjan

Kínverjar og langtímahugsunin

Egill Helgason
Mánudaginn 30. júlí 2012 21:36

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er spurning hvernig á að bregðast við kenningum um að fyrirhuguð kaup Huangs Nubo á Grímsstöðum á Fjöllum hafi tengst kínverska hernum og plönum hans í Norðurhöfum.

Nú er það svo að varla er að finna jörð á Íslandi sem er lengra frá sjó en einmitt Grímsstaðir – hún er einfaldlega lengst upp á hálendi.

Svo fer maður að lesa hér og þar gömlu lummuna um að Kínverjar hugsi svo langt fram í tímann. Ég veit ekki alveg hvaðan það rugl er komið, en kannski er þetta byggt óljósri hugmynd um kínverska keisaraveldið sem stóð frá 221 f. Kr. til 1912.

Þetta veldi var lengst af furðu stöðugt, en það var líka á valdi mikillar stöðnunar. Hlutirnir þróuðust hægt og þótt Kínverjar hafi gert ýmsar uppgötvanir, var það Evrópa sem náði forskoti með sinni endurreisn, upplýsingu og iðnbyltingu.

Síðustu áratugina lék keisaradæmið á reiðiskjálfi: Það var of veikt til að verjast ásælni erlendra stórvelda, boxarauppreisnin svokölluð 1898-1901 var örvæntingarfull tilraun til að reka útlendingana burt. Eftir hana tók við tími þegar herstjórar börðust um völdin – það endaði með því að Kuomintang-hreyfingin undir stjórn Sun Yat Sen varð ofan á. Hún aðhylltist vestræn sjónarmið og vestrænt lýðræði.

Sun dó 1925, arftaki hans var hershöfðinginn Chang Kai-shek. Tími hans einkenndist af stöðugum ófriði – hann gekk milli bols og höfuðs á kommúnistum 1927 eins og lýst er í frægri bók André Malraux sem nefnist Hlutskipti manns.

Upp úr því hófst Gangan mikla sem varð eins konar stofnmýta kommúnistahreyfingarinnar – alls staðar á jöðrum ríkisins var stöðugur ófriður milli stjórnarinnar, herstjóra, kommúnista og flokka ótíndra ræningja.

Japanir réðust á Shanghai 1937, þeir voru þegar búnir að stofna leppríki í Mansjúríu, og síðar inn í allt Kína. Chang var loks neyddur til að vinna með kommúnistum að því að koma Japönum úr landinu. Það gekk ekki þrautalaust og eftir styrjöndina braust aftur út borgarastríð. Kommúnistar náðu völdum 1949 og hröktu Chang í útlegð til eyjarinnar Formósu.

Maó Tse Tung varð eins og hálfguð í Kína. En hann var ekki góður stjórnandi, nei, þrátt fyrir átrúnað á hann var hann einn afkastamesti fjöldamorðingi sögunnar. Stjórnarandstæðingar voru sendir unnvörpum í fangabúðir. Herferðir eins og Stökkið mikla og Leyfum þúsund blómum að spretta juku enn á hörmungarnar. Hápunkti náði ruglið í Menningarbyltingunni sem hófst 1965. Þá var skorin upp herör gegn menntun og menningu sem olli ómældu tjóni – ungu heilaþvegnu fólki var sigað á menntamenn og stofnanir ríkisins.

Menningarbyltingunni var snögglega aflýst 1968, en Maó hélt enn völdum. Hann lést 1976 og stuttu eftir það hófst sókn Kína til að verða eins og það er í dag – staður þar sem ríkir nokkurs konar herskálakapítalismi sem er blandinn innantómum kommúnískum slagorðum. Að sumu leyti minnir þetta á fasisma. En Kínverjar hafa auðgast, þeir eru orðnir mikið efnahagsveldi og framleiða ókjör af varningi sem er seldur víða um heim. Öllu er þessu samt stjórnað af þröngri klíku sem heldur uppi lögregluríki og virðir ekki mannréttindi eða tjáningarfrelsi.

En undirstöðurnar kunna að vera rotnar: Bankar í Kína þykja afar ótraustvekjandi og þar er í gangi stærsta húsnæðisbóla sögunnar. Kreppusérfræðingurinn Robert Z. Aliber sem var í viðtali í Silfri Egils um daginn sagðist þora að veðja fjármunum sínum, barna sinna og barnabarna á að kínverska bólan myndi springa.

Er eitthvað í þessari sögu sem bendir til þess að Kínverjar hugsi sérlega langt fram í tímann?

Var Menningarbyltingin dæmi um langtímahugsun, eða undantekning frá henni?

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Hnýtir í Sigríði Andersen og spyr hvort hún sé viljandi að misskilja eða vísvitandi að blekkja

Hnýtir í Sigríði Andersen og spyr hvort hún sé viljandi að misskilja eða vísvitandi að blekkja
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Nína Richter skrifar: Geðveikir galdrar á Tiktok

Nína Richter skrifar: Geðveikir galdrar á Tiktok
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Stjórnarandstaðan krossleggur lappir og þykist óspjölluð og hrein – talar gegn lýðræði

Svarthöfði skrifar: Stjórnarandstaðan krossleggur lappir og þykist óspjölluð og hrein – talar gegn lýðræði
Eyjan
Fyrir 1 viku

Karl Ágúst Úlfsson: Þýðingin sögð frumtextanum fremri – ekki lítið hrós fyrir tvítugan ungling

Karl Ágúst Úlfsson: Þýðingin sögð frumtextanum fremri – ekki lítið hrós fyrir tvítugan ungling