
Kanada er líkt Bandaríkjunum en samt ólíkt. Kanadamenn virðast miklu hæverskari og hlédrægari en Bandaríkjamenn upp til hópa – þeir eru löghlýðnir, ég hef aldrei komið til lands þar sem er rólegri umferðarmenning.
Það var sagt um Kanada að meðan Bandaríkjamenn sunnan landamæranna svæfu með byssur undir koddanum, læstu Kanadamennirnir norðan þeirra ekki einu sinni útidyrunum hjá sér.
Samt er Kanada mikið fjölmenningarsamfélag, langflestir íbúar landsins eru aðkomufólk – og ekki svo langt síðan margt af því kom og fólksstraumur liggur enn til Kanada.
Efnahagslega gengur vel í Kanada, það er ekki síst því að þakka að landið er olíuríki. Og nú eru meðaltekjur í Kanada orðnar hærri en í Bandaríkjunum.
Þegar ég var í Kanada í vor sagði aldraður maður sem hefur búið víða um heim við mig að Kanada væri landið þar sem ameríski draumurinn hefði ræst.