
Það er merkilegt þegar svæði sem áður voru nánast óbyggileg verða feiki verðmæt vegna breyttrar tækni og atvinnuhátta.
Svoleiðis er farið um Grænland.
Talsverðar olíulindir virðast vera á grænlenska landgrunninu, en ennþá meiri slægur kann að vera í námagreftri.
Grænlendingar eru ekki nema 50 þúsund, þeir búa í risastóru landi sem er fullt af ís. Það er erfitt að halda uppi samgöngum á Grænlandi og fólk er ekki sérlega vel menntað. Grænlendingar lúta dönskum yfirráðum, en hafa þó nokkra sjálfsstjórn. Eins og staðan er fá þeir mikla fjárstyrki frá Danmörku, þegar fram líða stundir kunna þeir að verða óþarfir.
Grænland er ekki aðili að ESB þótt Danmörk sé það.
Nú er rætt um að Grænland fari að breyta um utanríkisstefnu. Það myndi felast í tvennu, í sókn eftir sjálfstæði og því að Grænlendingar myndu halla sér meira í vestur, í átt til Bandaríkjanna.
Þá er spurt hvort Grænlendingar séu of fámenn þjóð til að geta verið sjálfstæð – þrátt fyrir hugsanlegt ríkidæmi í framtíðinni?
Bandaríkin hafa sýnt Grænlendingum vinsemd upp á síðkastið. Grænlenskum stjórnmálamönnum hefur verið boðið til Bandaríkjanna og sá möguleiki hefur jafnvel verið nefndur að Grænland verði aðili að NAFTA, fríverslunarbandalagi Norður-Ameríku. Það er þó víst að Bandaríkjamenn leita ekki í átt til Grænlands af óeigingjörnum hvötum – þeir hafa augastað á málmum og olíu.
Hvernig er þá Grænlandi best borgið – sem sjálfstætt ríki, í sambandi við Danmörku eða á áhrifasvæði Bandaríkjanna? Þá má heldur ekki gleyma því að næsta nágrannaríki Grænlands í vestri er Kanada.
Eins og áður segir er Grænland ekki í Evrópusambandinu og sambandið hefur verið fremur aftarlega á merinni í samskiptunum við Grænland. Í síðasta mánuði undirrituðu fulltrúar Evrópusambandsins þó samstarfsyfirlýsingu við grænlensku stjórnina í Nuuk þar sem er kveðið á um auknar fjárfestingar og samstarf við námagröft og vinnslu málma.
Eins og áður segir breytist tækni og atvinnuhættir. Íslendingar státa sig af auðlindum sínum, en í því efni er eftir miklu meira að slægjast á Grænlandi. Það skyldi þó aldrei vera að Grænlendingar yrðu miklu ríkari en við innan ekki svo margra ára?