
Sjóslysið mikla undan ströndum Ítalíu er allt hið dularfyllsta. Virðist sem mannleg mistök hafi ráðið ferð – skipstjórinn kemur sér í land og ætlar að forða sér burt með leigubíl. Meðan ríkir ringulreið á skipinu og fjöldi farþega lokast inni í því. Skipið sekkur upp í landsteinum í þokkalegu veðri.
Skip eins og þetta eru eins og fljótandi borgir. Á þeim er allt til alls, fjöldi veitingastaða, verslanir, sundlaugar – farþegarnir telja þúsundir.
En þau geta lent í slysum eins og önnur samgöngutæki, 2007 sökk stórt skip sem nefndist MS Sea Diamond rétt utan við höfnina á grísku eyjunni Santorini. Tveir farþegar af skipinu fórust – skipið liggur þar enn á botninum og hafa verið í gangi málaferli gegn skipstjórnarmönnum.
Costa Concordia, skipið sem sökk við eyuna Giglio undan ströndum Ítalíu, ætti ekki að vera Íslendingum alveg ókunnugt. Ég hef grun um að nokkur fjöldi þeirra hafi siglt með skipinu, enda hafa Heimsferðir selt miða í siglingar með því.

Costa Concordia meðan allt lék í lyndi. Myndin er af vef Heimsferða.