
Látinn er öndvegismaðurinn og hinn frábæri íþróttamaður Sigursteinn Gíslason.
Hann er einn sigursælasti fótboltamaður Íslandssögunnar, ég held að enginn hafi orðið Íslandsmeistari oftar en hann – fyrst með ÍA og síðar með KR.
Hann varð aðeins 43 ára, háði harða baráttu við krabbamein og þurfti að lúta í lægra haldi fyrir vágestinum.
Steini er mörgum harmdauði, hann var vinsæll maður og vinmargur.
Sjálfur kynntist ég honum þegar hann kom í KR – hafði lengi borið óttablandna virðingu fyrir honum sem leikmanni erkifjendanna uppi á Skaga. Í Vesturbænum smitaði dugnaður hans og sigurvilji út frá sér. Hann varð fljótt sérlega vinsæll hjá okkur áhorfendunum.
Það er ljómi af minningu hans.
