
Á að byggja „fleiri hótel“ er spurt?
Þá er verið að ræða umdeilda uppbyggingu við Ingólfstorg svokallað.
Viðkvæmi punkturinn er tónlistarsalur í húsi sem nú er kallað Nasa, ein eitt sinn hét Sjálfstæðishúsið og síðar Sigtún.
Nasa er þannig nafn að maður getur varla tekið sér það í munn – og er ég þó enginn sérstakur málhreinsunarmaður.
En staðurinn hefur verið skemmtilegur og vinsæll.
Húsið sjálft sem veit út að Austurvelli mun standa, enda er það friðað í bak og fyrir, en viðbyggingin sem á að hýsa tónlistarsalinn verður væntanlega rifin.
Eigandi hússins segir að leigusamningur renni út í sumar, það hafi líka verið vanefndir á honum.
En mörgum þykir vænt um þetta hús, það er staður þar sem hópur fólks með sameiginlegt áhugamál hefur átt samastað – svona líkt og Glaumbær og Hótel Borg á sinni tíð.
Þannig að það hlýtur að rétt að leita eftir einhvers konar málamiðlun. Í fyrstu tillögum að húsum sem áttu að rísa þarna var reyndar gert ráð fyrir að tónleikasalurinn yrði endurbyggður í svipaðri mynd.
Á hinn bóginn er ágætt að skuli fara fram endurskipulagning á Ingólfstorginu. Allt þetta svæði er heldur ótútlegt – það er einkennilegt ósamræmi í öllu og torgið sjálft er eins og stór steypuklumpur.
Enda var í raun ekkert torg þarna fyrr en seint og síðarmeir og þá var farið að kenna það við Ingólf, sunnanmegin stóð Hótel Ísland sem brann í stríðinu og í rústunum af því var hið svokallaða Hallærisplan. Á móti var Steindórsplanið með gráu húsi og svo minjagripabúð í litlum skúr.
En hvað varðar fleiri hótel þá er um að gera að byggja þau meðan einhver kemur til að sofa í þeim. Ekki heyrir maður kvartað undan „fleiri hótelum“ í New York, London eða París. Þetta er jú sú starfsemi sem þrífst hvað best í borgum nútímans.