
Aðildarviðræðurnar við ESB eru byrjaðar að fjara út. Það bendir til þess að Samfylkingin hafi áttað sig á því hver er hinn pólitíski veruleiki á Íslandi.
Fram að alþingiskosningunum í apríl verða ekki opnaðir neinir nýir samningskaflar og farið verður hægt í vinnu við þá sem þegar hafa verið opnaðir.
Þetta er gert til að koma til móts við Vinstri græna sem eiga afar erfitt með að fara með ESB-málið inn í kosningar.
En þetta hefur líka aðra hlið. Þegar samningaviðræðurnar eru kominar á ís er auðvelt að láta þær einfaldlega fjara út og enda – eins og allt stefnir í að verði eftir kosningar.
Það myndi bíða nýrrar ríkisstjórnar að setja aftur kraft í viðræðurnar – er líklegt að stjórn til dæmis Sjálfstæðisflokks og Framsóknar myndi gera það?
Þannig endar líklega þetta ESB-ferðalag, ekki með hvelli heldur snökti, eins og segir í kvæði T.S. Eliot.