

Árni Páll Árnason talaði um „þjóðarheimilið“ í ræðu á landsfundi Samfylkingarinnar í dag. Líklega kannast fæstir við þetta hugtak, ég hef meira að segja séð á Facebook að sumum þykir þetta hallærislegt.
Þetta er komið frá Svíþjóð, frá krötunum þar. Þjóðarheimilið, eða folkhemmet, var blönduð leið milli sósíalisma og kapítalisma, sátt sem átti að ná yfir allt sænska samfélagið. Hugtakið varð til í kreppunni. Þá var Per Albin Hanson leiðtogi sænskra sósíaldemókrata, hann var það frá 1925 til dauðadags 1946 og forsætisráðherra með stuttu hléi á árunum 1932 til 1946.
Sósíaldemókratar náðu völdum í Svíþjóð 1932 og þá varð til sátt í samfélaginu sem meira að segja fjarska íhaldssöm og þýsksinnuð yfirstétt beygði sig undir. Þeim tókst að kveða niður kommúnista sem upp frá því voru veikir í Sviþjóð. Svíar losnuðu undan öfgum bæði til hægri og vinstri sem kölluðu yfir svo miklar hörmungar í nágrannalöndum.
Frægt atvik í þessari sögu er 1. maí ganga þar sem í fyrsta sinn er gengið samsíða með hinn rauða fána verkalýðsins og fána Svíþjóðar. Eftir þetta ríktu sósíaldemókratar nær óslitið í 44 ár.
Endurreisn samfélagsins var hafin undir yfirskriftinni Folkhemmet – þjóðarheimilið – sem var slagorð Pers Albins eins og Svíar kalla hann. Svíþjóð náði sér undurfljótt úr kreppunni og til varð hið fræga velferðarríki.
Svíþjóð tókst svo – með nokkrum klækjabrögðum – að standa fyrir utan heimstyrjöldina. Meðan aðrar þjóðir bárust á banaspjót og heimurinn var í ljósum logum, birtust myndir frá Svíþjóð af hamingjusömum fjölskyldum og sællegum börnum að leik á róluvöllum.
Per Albin Hanson andaðist sem fyrr segir 1946. Hann fékk hjartaslag þegar hann steig út úr sporvagni; þrátt fyrir sitt háa embætti ferðaðist hann alltaf með sporvagni í vinnuna.
Hann er einn merkasti stjórnmálamaður 20. aldarinnar.