Hér skal því spáð – og þarf engan spámann til – að ESB skýrslan sem birtist í dag leiði til nákvæmlega engrar niðurstöðu, að hún fleyti umræðunni ekki áfram um millimetra, og að allt haldi þetta áfram í sömu skotgröfunum og fyrr.
Hver mun túlka skýrsluna með sínu lagi.
Skýrslan gæti þó leitt til þess að ríkisstjórnin þokaðist nær því að slíta aðildarviðræðunum við Evrópusambandið. Þ.e. að hægt verði að nota eitthvað í skýrslunni til þess.
En það ræðst samt ekki á vettvangi skýrslunnar, heldur í pólitísku samningum milli stjórnarflokkanna. Stór hluti Framsóknarflokksins telur hag sínum best borgið með því að slíta viðræðunum strax – og nýtur þar fulltingis Heimssýnarmanna sem er að finna í Sjálfstæðisflokknum og í Hádegismóum.
Innan Sjálfstæðisflokksins eru skoðanirnar skiptari. Þar vegur þungt afstaða Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs sem vilja halda viðræðum áfram. Að auki er nokkur hópur sjálfstæðismanna sem lítur svo á að lofað hafi verið þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna. Það þarf í raun ekki að vera vont fyrir forystu flokksins að láta málið dingla í lausu lofti um sinn.
Það sem stendur í skýrslunni breytir semsagt sáralitlu um þetta – en svo er spurningin hvernig menn finna not fyrir hana til að styrkja sínar fyrirframmótuðu skoðanir.