„Breytingarnar á grunnskólalögunum eru ekki það eina sem breyst hefur í menntakerfinu. Framhaldsskólarnir krefjast sífellt hærri einkunna hjá þeim sem vilja fá inngöngu og í háskólunum eru kröfurnar enn meiri. Fjárveitingar til framhalds- og háskóla hafa lækkað mörg ár í röð og þeim sem fá skólavist þar af leiðandi fækkað. Í háskólunum er ástandið þannig í sumum deildum að einungis lítill hluti þeirra sem sækir um getur gert sér vonir um að fá pláss – og þá eru það einkunnirnar sem gilda.,“ skrifar Borgþór Arngrímsson sem er blaðamaður Skólavörðunnar í Kaupmannahöfn um ástandið í Danmörku pistli á síðuna skolavardan.is.
Fasteignasalar hafa fattað að hægt er að hækka verðið
Fasteignasalar hafa víst áttað sig á ástandinu þar og segja barnafólk tilbúið til að borga háar fjárhæðir fyrir íbúðir nálægt góðum skólum. Grunnskólamenntunin skiptir miklu um hvernig börnunum muni vegna í lífinu. Fræðsluyfirvöld í Kaupmannahöfn nota víst ýmsar mælistikur á skólanna til að meta starf þeirra. Borgþór skrifar: „Niðurstöður þessa mats, orðsporið sem af skólanum fer og það hvernig nemendum vegnar svo í framhaldsskóla er það sem foreldrar hafa við að styðjast. Í könnun sem eitt dönsku blaðanna gerði kom fram að orðsporið er það sem vegur þyngst af þessu þrennu, og það reyndar langþyngst.“
Hverfisskóla fyrirkomulagið er við lýði í Kaupmannahöfn
Í Kaupmannahöfn er hverfisskóla skipulag þannig að þau börn sem búa nálægt skólanum eiga forgang. Í Danmörku er víst algengt að seljendur slái af uppsettu verði til að ná að selja. En í hverfum þarsem eru góðir grunnskólar þá hafa kaupendur oft verið að bjóða hærri upphæðir í íbúðirnar en sett hafa verið upp. Málamyndabúseta, það er þegar fólk er skráð á ákveðnum stað til heimilis, en býr í raun annarstaðar hefur víst aukist verulega í nágrenni við góðu skólanna. En skólastjórnendur geta ekki aðhafst í því. Enda skólastjórum ekki heimilt að „njósna um fólk,“ einsog einn skólastjórinn orðaði það. En auðvitað er hegðun foreldra sem leggja alúð í að undirbúa líf barnsins síns vel og gera framtíð þess auðveldari frekar en erfiðari skiljanleg. Grein Borgþórs lýkur á orðum frá einum stjórnarmanni skóla sem ræddi við Berlingske tidende.
Stjórnarmaðurinn nefndi tiltekinn skóla sem fyrir áratugum hefði þótt fremur slakur í samanburði við aðra skóla en hefði nú um margra ára skeið verið langt yfir meðaltali skóla í borginni. Þessi skóli mætti enn búa við að talað væri um hann og nemendur hans í niðrandi tón.
Börkur Gunnarsson gerði útdráttinn.