Silfrið hefur aftur göngu sína á RÚV um mánaðarmótin. Verður þátturinn í sameiginlegri umsjá Fanneyju Birnu Jónsdóttur fyrrverandi aðstoðarritstjóra Fréttablaðsins ásamt Agli Helgasyni sem heldur úti Silfur Egils hér á Eyjunni. Búið er að ganga frá samningum við Egil og Fanneyju en það liggur ekki fyrir hvort þau verði saman á skjánum eða hvort þau skipti með sér að stýra þáttunum.
Við ætlum að endurvekja Silfrið. Þetta verður ekki lengur Silfrið hans [Egils]. Við deilum þessu,
sagði Fanney Birna í þættinum Hismið á Kjarnanum, en hún verður fyrsti meðstjórnandi Egils að þættinum. Silfur Egils hóf göngu sína á Skjá einum um aldamótin, þátturinn færðist þaðan yfir á Stöð 2 og síðar á RÚV þaðan sem hann var tekinn af dagskrá 2013. Líkt og þá verður Silfrið á dagskrá á sunnudögum.
Ari Brynjólfsson – ari@pressan.is