„Það hefur ekki verið samið um neitt ennþá. En ég vil ekki tjá mig um neinar gróusögur um hvað verður í stjórnarsáttmálanum,“ segir Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins í samtali við Eyjuna.is. En á forsíðu Fréttablaðsins í dag birtist frétt um að þjóðaratkvæði yrði í stjórnarsáttmálanum og að MS verði sett undir samkeppnislög og tollar lækkaðir á hvítt kjöt.
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, hafði fyrr í morgun í samtali við mbl.is gefið í skyn að þetta væri ekki rétt hjá Fréttablaðinu en við blaðamanninn sagði hann: „Það er margt nýtt sem maður lærir með því að lesa blöðin.“ Benedikt var samt jákvæður á stjórnarmyndun enda sagði hann í Kryddsíld Stöðvar 2 á gamlársdag að líkurnar á því að flokkunum tækist að mynda ríkisstjórn væru 87,5%.
Fulltrúar flokka Bjartrar framtíðar, Viðreisnar og Sjálfstæðisflokksins munu hittast seinna í dag en þegar Eyjan talaði við Bjarna Benediktsson í morgun þá var ekki búið að ákveða klukkan hvað fundurinn yrði.