Gunnar Smári Egilsson fyrrverandi útgefandi og ritstjóri Fréttatímans hefur tilkynnt að Sósíalistaflokkur Íslands verði stofnaður 1.maí næstkomandi og hefur hann opnað vefsvæði þar sem fólk getur skráð sig í flokkinn.
Á vef flokksins segir að Sósíalistaflokkurinn sé flokkur launafólks og allra sem búi við skort, ósýnileika og valdaleysi:
Andstæðingar Sósíalistaflokks Íslands eru auðvaldið og þeir sem ganga erindi þess. Vettvangur Sósíalistaflokks Íslands er breið stéttabarátta sem hafnar málamiðlunum og falskri samræðu.
Gunnar Smári hefur staðið í ströngu að undanförnu vegna rekstrarerfiðleika Fréttatímans og hafa starfsmenn ekki vandað honum kveðjurnar, en þrátt fyrir afsögn sína nýverið er hann sem áður stærsti einstaki hluthafinn í félaginu. Á Fésbókarsíðu sinni í dag segir Gunnar Smári að hann sé nú á Akureyri:
Ég fer um bæinn á eftir og reyni að hafa upp á sósíalistum.