fbpx
Miðvikudagur 16.júlí 2025
Eyjan

Breytingar, breytinganna vegna

Ari Brynjólfsson
Föstudaginn 29. september 2017 16:14

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristinn Ágúst Eggertsson frambjóðandi í prófkjöri Pírata í Suðurkjördæmi.

Kristinn Ágúst Eggertsson skrifar:

Flestir kannast við þá óþægilegu tilfinningu sem að maður fær stundum þegar að eitthvað breytist. En þeir sömu kannast líka við það að oft verður breytingin til þess að eitthvað verður betra. Þá hugsar fólk oft með sér „afhverju var ég ekki löngu búin/n að þessu?“. Auðvitað eru breytingar ekki alltaf af hinu góða, en þannig er lífið. Við þurfum stundum að hafa rútínu. Rútínur geta samt orðið leiðigjarnar og þá er gott að breyta aðeins til. Jafnvel bara að breyta rútínunni. Stundum þurfum við að gera stórar breytingar. Það hræðir alltaf. En aftur komum við að því að ávinningur breytinganna er oft svo mikill að allt það sem að við hræddumst verður hjóm eitt í samanburði. Nú er ég búinn að röfla nóg um hvernig fólk bregst við breytingum, svo að ég ætla að breyta aðeins til og fara að tala um þær breytingar sem að mér finnst að við sem þjóð þurfum að gera.

Við þurfum að fara að hugsa betur um þá sem minna mega sín. Sama hvort að um er að ræða öryrkja eða flóttamenn. Við státum okkur af því að vera ein ríkasta þjóð heims og ættum við því að geta séð öllum sem hér búa farboða og töluverðum fjölda af þeim sem hér vilja fá að búa. Hver á að borga spyrðu? Jú, ef að við breytum lögum um þunna fjármögnun, koma álfyrirtækin sem að eru hér á landi til með að fara að borga meira til samfélagsins en bara skatta af launum starfsmanna. Með smávægilegum breytingum á auðlindagjaldi sjávarútvegsfyrirtækja, væri hægt að auka tekjur ríkisins töluvert. Auðvitað yrði hagnaður téðra fyrirtækja minni, en þegar við skoðum stóra samhengið, þá spyr ég hvort sé mikilvægara að við sjáum um okkar fólk eða að útgerðarfyrirtæki skili met hagnaði. Breytum líka þeirri meingölluðu hugsun sem plagar marga að hér sé ekki bæði hægt að gera vel við flóttafólk og þá Íslendinga sem eiga um sárt að binda. Það er hægt að gera vel við báða hópa. Það eina sem þarf til að bæta stöðu þessa fólks, er pólítískur vilji. Eins og er, þá er hann enginn.

Við þurfum að endurskoða ellilífeyrinn. Þetta er peningur sem að fólk hefur verið alla ævi að borga sjálfu sér. Afhverju ætti ríkið að skipta sér af því hvort að viðkomandi eigi meiri pening en eitthvað fyrirfram ákveðið hámark segir til um? Setjum frekar lágmark og látum lífeyrissjóðina borga upp í topp. Fækkum lífeyrissjóðum líka. Það yrði breyting til batnaðar. Við erum um 340.000 manns og þurfum ekki svona marga lífeyrissjóði. Og ef að fólk vill halda áfram að vinna eftir 67 ára aldurinn, hví ættum við að letja það með skerðingum á lífeyri? Þurfum við ekki á öllum vinnandi höndum að halda? Vinnan er meira en bara vinna. Vinnan er líka félagslegur þáttur. Hún fær fólk til að hittast. Spjalla saman. Deila reynslu. Þökkum eldri borgurum þessa lands fyrir að hafa komið því jafn vel á kopp og raun ber vitni. Ef að ekki væri fyrir þetta fólk, værum við ekki jafn vel stödd og við erum í dag. Hjálpum eldri borgurum að eiga góðan seinni hálfleik.

Við þurfum að styrkja innviði. Það þarf að endurnýja stóra hluta vegakerfisins. Það þarf að auka fjárframlög til heilbrigðismála. Það þarf jafnvel að endurskoða margt innan heilbrigðiskerfisins. Við þurfum að breyta því hvernig við lítum á ríkissjóð. Ríkissjóður er sparnaður okkar allra. Við þurfum að nota hann til að borga ýmislegt. Það er ekki stór afrek að skila afgangi af fjárlögum. Það er stór afrek að hafa þor til að nota áætlaðan afgang í heilbrigðiskerfið. Ef að fólk vill af einhverjum ástæðum alls ekki nota þann aur í heilbrigðiskerfið, þá má nota hann til að borga niður skuldir ríkissjóðs. Það er ávinningur af því líka. Persónulega finnst mér asnalegt að tala fyrir vegatollum á sama tíma og áætlað er að afgangur verði af fjárlögum.

Við megum til með að breyta stjórnmálaumhverfinu. Besta leiðin væri að sjálfsögðu að taka upp persónukjör og afnema stjórnmálaflokka algerlega. Stjórnmálaflokkar eru til margra hluta nytsamlegir, en verða samt alltaf einhvernveginn hálfgerð valdaklíka. Stjórnmálaflokkar hatast út í hvern annan og beita sér hart gegn hver öðrum. Allt snýst um að fá sem mest völd. Stjórnmálaflokkar kosta okkur líka mikla peninga. Peninga sem annars væri hægt að nota í annað. Þessi fjölgun flokka sem að á sér stað um þessar mundir er að mínu mati mjög góð, því að hún dregur úr fylgi „stóru“ flokkanna og kemur okkur nær persónukjöri. Það væri breyting sem skilaði sér í betra kerfi, því að menn þyrftu að vinna fyrir atkvæðunum en gætu ekki keypt þau með þrýstingi og loforðum eins og nú tíðkast.

Við þurfum ekki að breyta. Við verðum að breyta. Fyrir þá sem minna mega sín. Fyrir eldri borgara. Fyrir okkur sjálf. Breytum nú til og kynnum okkur það sem er í boði. Ekki fara blindandi í kjörklefann. Þú átt ekkert inni hjá flokkunum og flokkarnir eiga ekkert inni hjá þér. Ef þú átt eitthvað inni hjá flokkunum, skilaðu þá auðu eða breyttu til, því þú gætir verið hluti af vandamálinu, ekki lausninni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þingfundur hefst kl. 10 – Þrjú mál á dagskrá fyrir sumarfrí

Þingfundur hefst kl. 10 – Þrjú mál á dagskrá fyrir sumarfrí
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Björn Jón skrifar: Til varnar Íslandssögu Jónasar frá Hriflu

Björn Jón skrifar: Til varnar Íslandssögu Jónasar frá Hriflu
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Sigurður Hólmar skrifar: Réttindabrot gegn fötluðum og öldruðum einstaklingum

Sigurður Hólmar skrifar: Réttindabrot gegn fötluðum og öldruðum einstaklingum
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Stalín er ekki lengur hér

Óttar Guðmundsson skrifar: Stalín er ekki lengur hér
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Kjarnorkuákvæðinu beitt

Kjarnorkuákvæðinu beitt
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Jón Gnarr telur sig vita hvað vakir fyrir stjórnarandstöðunni í „lengsta eftirpartý Íslandssögunnar“

Jón Gnarr telur sig vita hvað vakir fyrir stjórnarandstöðunni í „lengsta eftirpartý Íslandssögunnar“