„Ég mun gefa kost á mér í fyrsta eða annað sætið,“ segir Sigfús Karlsson sem vill leiða lista Framsóknarflokks í Norðausturkjördæmi fyrir kosningarnar í næsta mánuði. Nú þegar hefur Þórunn Egilsdóttir sagst vilja efsta sætið. Sigfús segir mikinn missi að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni sem hefur yfirgefið Framsóknarflokkinn.
Mér finnst þetta mjög sorglegt. Sigmundur hefur gert margt gott fyrir flokkinn og ég sé eftir honum og því fólki sem er að fara í þetta nýja fram boð.
Skilur Sigmund
Hann segir ekki hafa komið til greina að yfirgefa Framsókn með Sigmundi Davíð.
Þetta kom flatt upp á mig á þessum tímapunkti. Ég er þó ekki reiður en dapur. Þetta fólk hefur verið samstarfsfólk mitt í nokkuð mörg ár og við Sigmundur höfum unnið vel saman og munum eflaust gera áfram. Ég skil hann alveg. Það hefur ekki verið einleikið ástandið í flokknum undanfarið eitt og hálft ár. Mér finnst eins og það hafi ekkert verið hlustað á hans útskýringar. Hins vegar er ég Framsóknarmaður í hjarta mínu og hef verið það síðan ég var 14 ára og vil gera mitt til að gera flokkinn betri.
Hollt að hafa val
Þórunn Egilsdóttir hefur þegar sagst vilja leiða flokkinn í kjördæminu. Er Sigfús að fara gegn Þórunni?
Ég er að gefa flokksmönnum val. Það er hollt að gefa val og ég held að það sé kominn tími á að Akureyringur leiði listann í þessu kjördæmi. Listinn verður borinn upp 7. október og vonandi verð ég þar í framvarðarsveit líkt og ég sækist eftir.