Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins þakkar Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrrverandi formanni og öllum þeim sem yfirgefið hafa flokkinn á síðasta sólarhring fyrir samstarfið og óskar þeim alls hins besta. Segir Sigurður Ingi í opnu bréfi til Framsóknarmanna að við núverandi aðstæður sé best að taka stöðuna ákveða hvernig hugsjónum og markmiðum flokksins verði best náð til heilla og hagsbóta fyrir alla landsmenn. Eyðir Sigurður Ingi ekki mörgum orðum í þá sem yfirgefið hafa flokkinn:
Atburðarrás síðustu daga hefur valdið umróti í flokknum sem hefur orðið til þess að gott fólk hefur valið að yfirgefa okkar trausta og gamalgróna flokk. Ég vil þakka þeim fyrir störf í þágu flokksins og óska þeim alls hins besta. Ég þarf ekki að eyða mörgum orðum í þá atburði sem urðu til þess að fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins ákvað að segja skilið við flokkinn. Þá atburði þekkjum við vel og höfum eðlilega á þeim mismunandi skoðanir,
segir Sigurður Ingi í bréfi sínu. Leggur hann áherslu á að ágreiningsmál verði leidd til lykta með lýðræði að leiðarljósi. Egill Helgason fjölmiðlamaður reifaði þá kenningu hér á Eyjunni hvort brotthvarf Sigmundar Davíðs úr Framsóknarflokknum yrði til þess að flokkurinn opnaðist í báða enda, vekur því athygli þegar Sigurður Ingi segir í bréfinu:
Í þingflokkum eru öflugir einstaklingar og þeir sem hafa verið tilbúnir til að vinna saman hafa gert það mjög vel. Þingflokkurinn hefur áunnið sér traust og er eftirsóknarverður samstarfsflokkur.
Mikilvægt að ganga sameinuð til kosninga
Óskar hann jafnframt eftir frambjóðendum á lista Framsóknarflokksins í kosningunum 28. október næstkomandi:
Góður árangur og samvinna byggist á því að fólkið í flokknum taki þátt í flokksstarfi og móti stefnu til framtíðar. Þannig erum við sterkust og þannig náum við árangi sem heild. Staða Framsóknarflokksins er sterk og mikilvægt að við göngum sameinuð til kosninga. Við höfum skyldum að gegna. Of mörg mál hafa legið í láginni hjá síðustu ríkisstjórn sem þola enga bið. Það er okkar að hlúa að þeim sem minna eiga og byggja upp nauðsynlega innviði í velferðarkerfinu. Kjósendur vilja trausta stjórnmálamenn og flokka sem sýna ábyrgð í störfum sínum. Kosningarnar 28. október munu öðru fremur snúast um traust og stöðugleika.