„Með hliðsjón af því hve miklu af skattfé almennings er varið til hælismála er stórundarlegt að umræðan sé ekki meiri um útlendingamálin á stjórnmálavettvangi. Það er engu líkara en íslenskir stjórnmálamenn forðist málaflokkinn og vilji helst að um hann ríki pólitísk þögn,“ segir Björn Bjarnason fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins í grein í Morgunblaðinu í dag. Segir hann að þögnin um málaflokkinn hafi verið rofin þegar Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hélt ræðu á fundi Samtaka eldri sjálfstæðismanna þann 13. september síðastliðinn og ræddi um ófyrirsjáanleika í útlendingamálunum:
„Það sem við höfum lært er að það borgar sig að stórefla stjórnsýsluna, þannig að niðurstaða fáist í þau mál sem allra fyrst. Það er mannréttindamál að fá svar strax. […] Mér finnst erfitt að horfa á [eftir] þessum miklu fjármunum sem fara í þetta mál,“
sagði Bjarni. Björn segir mikilvægt að efla landamæravörslu, það gæti stemmt stigu við komu þeirra sem leggi fram tilhæfulausar hælisumsóknar:
Þeir eiga ekkert erindi hingað og ætti að gera skipulegt átak í samvinnu við flugfélög til að spara þeim tilgangslausa ferð til Íslands í von um hæli. Þetta fólk mætti kalla félagslegt farandfólk því að tilgangur þess er oft einkum sá að nýta sér félagslegt kerfi á meðan hælisumsókn er til meðferðar.
Bjarni mun hafa sagt á fundinum að lögreglan færi ekki óvopnuð í Víðines þegar hælisleitendur dveljast þar. Björn segir að Alþingi hafi veikt tiltrú til Útlendingastofnunar með því að veita albönsku fjölskyldunni, Xhulia, Kevi og Kastriot Pepaj, ríkisborgarétt. Vitnar Björn í orð Bjarna á fundinum þar sem hann sagði að það að veita ríkisborgararétt hafi verið slæm ráðstöfun:
„Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að vera með mjög strangar reglur og skýr svör, ella munum við kalla yfir okkur bylgjur af nýjum flóttamönnum,“
sagði Bjarni. Björn segir þetta sögulegt:
Það er í raun sögulegt að umræða af þessu tagi fari fram á stjórnmálavettvangi og líklega er Sjálfstæðisflokkurinn eini íslenski stjórnmálaflokkurinn sem hefur þrek til að taka þessi mál til umræðu á málefnalegan hátt og á svipuðum grunni og gert er í forystuflokkum í öðrum löndum.
Tekur hann þó fram að ekki skuli setja alla undir sama hatt, þar sem innflytjendur sem koma hingað eiga ekki að vera skipaðir í hóp með flóttafólki. Björn ræðir stöðu danska Þjóðarflokksins sem hafi gert byltingu í dönskum stjórnmálum, náð 21% fylgi og sé nú í samstarfi við jafnaðarmenn. Nú hafi Danir ákveðið að rjúfa þá hefð að taka á móti 500 kvótaflóttamönnum á ári þar sem danskt samfélag anni því ekki að laga þá sem áður hafa komið að dönskum háttum. Segir Björn að útlendingamálin verði óhjákvæmilega hluti af kosningabaráttunni næstu vikur:
Stutt en væntanlega snörp kosningabarátta er hafin vegna þingkosninganna 28. október. Óhjákvæmilegt er að frambjóðendur og flokkar geri kjósendum grein fyrir stefnu sinni í þessum mikilvægu málum.