„Við ætlum að bjóða fram allsstaðar þar sem við getum, við stefnum á að bjóða fram um allt land ef okkur tekst það. Það er ekki alveg fyrirséð vegna þess hve tíminn er stuttur,“ segir Þorvaldur Þorvaldsson formaður Alþýðufylkingarinnar í samtali við Eyjuna.
Flokkurinn, sem var stofnaður 2013, bauð fram í öllum kjördæmum nema Norðvesturkjördæmi í síðustu kosningum og hlaut alls 575 atkvæði eða 0,3% á landsvísu. Kosningar fara fram 28. október, Þorvaldur segir tímann ansi knappan:
Þetta er ansi knappur tími, það eru bara þrjár vikur til að safna meðmælendum og svoleiðis. Þannig að við verðum að sjá hvað setur.
Þorvaldur segir að hann fari bjartsýnn inn í kosningarnar líkt og áður:
Ég veit að okkar stefna á talsverðan hljómgrunn, og vaxandi. Það er margt í framvindunni í samfélaginu sem staðfestir það. Eins og bara það að þegar hagvöxtur eykst og fátækt helst við eða jafnvel eykst, þá hlýtur eitthvað stórvægilegt að vera að.
Aðspurður um hugsanlega sameiningu á vinstri vængnum segir Þorvaldur:
Það bættist auðvitað við einn flokkur sem kallar sig Sósíalistaflokk Íslands. Og vitum ekkert hvert hann ætlar en við erum almennt þeirrar skoðunar að sósíalistar eigi helst að vera sameinaðir í einum flokki. En við höfum auðvitað ekkert vald á því hvaða flokkar eru stofnaðir. Eitt er að kalla sig vinstrimann og annað er að vera það, við lítum svo á að lykilatriðið sé baráttan gegn auðvaldinu, baráttan sem er einkennandi fyrir vinstrimenn, öðruvísi verður engin breyting á samfélaginu.