Þegar löggjöf Evrópusambandsins um umhverfismat var innleidd árið 2000 var í nokkrum atriðum vikið frá reglugerð Evrópusambandsins, ESB, og sett mun strangari lagaákvæði í íslenska löggjöf. Fleiri framkvæmdir eru skyldaðar í umhverfismat hér á landi en í löndum Evrópusambandsins. Eitt atriðið varðar vegagerð. Í ESB reglunum eru nýir fjögurra akreina vegir sem eru lengri en 10 km matsskyldir. Í íslensku útgáfunni eru allir nýir vegir lengri en 10 km matsskyldir. Þarna munar miklu. Fyrirhugaður vegur um Teigsskóg er tveggja akreina og ef ESB reglur hefðu gilt hefði framkvæmdin ekki verið umhverfismatsskyld þar sem hún væri ekki meiri háttar samgönguframkvæmd samkvæmt reglum ESB
Hægt að breyta lögum
Á það hefur verið bent að Alþingi geti breytt lögunum og fært ákvæði þeirra að ESB reglunum. Þá væri hægt að fara í vegagerðina án umhverfismats. Þegar frumvarpið var til umfjöllunar Alþingis árið 2000 gerði Aðalheiður Jóhannsdóttir, lögfræðingur athugasemdir við ýmis ákvæði frumvarpsins og vakti athygli á verulegu ósamræmi í einstökum ákvæðum ESB reglugerðarinnar og sambærilegra ákvæða í frumvarpinu. Aðalheiður var á þessum tíma einn allra fremsti lögfræðingur Íslands á þessu sviði. Aðalheiður sagði m.a. að ríki væri ekki í sjálfsvald sett hvort þau vilja gera ríkari kröfur en þær sem settar eru fram í tilskipuninni og benti á 75. gr. EES-samningsins sem heimilar strangari löggjöf ef það raskar ekki samkeppnisstöðu þess lands gagnvart aðilum í öðrum löndum. Taldi Aðalheiður að sérstaklega greinin um Skipulagsstofnun gæti haft það í för með sér að samkeppnisstaðan sé skert á EES-svæðinu, m.a. vegna þess kostnaðar og tíma sem matsferilinn hefur í för með sér hjá Skipulagsstofnun.
Þá gerði Aðalheiður Jóhannsdóttir verulegra athugasemdir við valdsvið Skipulagsstofnunar sem gæfi stofnuninni vald til þess að koma í veg fyrir framkvæmd og að þar væri um alvarlegan galla á frumvarpinu að ræða sem yrði að laga. Staða Skipulagsstofnunar ætti sér enga hliðstæðu og byggði á misskilningi á löggjöf ESB sem væri verið að innleiða samkvæmt EES samningnum. Hin rétta leið væri að mati Aðalheiðar að mat Skipulagsstofnunar yrði lagt fyrir leyfisveitanda að framkvæmdinni sem tæki hina endalegu ákvörðun um framkvæmdina. Þessi alvarlegi galli leiddi til þess að Skipulagsstofnun gat stöðvað vegaframkvæmdir í Þorskafirði um langt árabil. Þetta var síðar lagfært að nokkru leyti en ekki að fullu og enn hefur Skipulagsstofnun tök á málinu umfram það sem eðlilegt er samkvæmt ábendingu Aðalheiðar Jóhannsdóttur frá árinu 2000. Staðreyndin í Teigsskógsmálinu er sú að séríslensk lagaákvæði hafa reynst Vestfirðingum erfiðust og hafa þau ákvæði torveldað eðlilegar vegaframkvæmdir, sem í Evrópusambandinu eru ekki taldar svo umfangsmiklar að þörf sé á sérstöku umhverfismatsferli.
Því hefur verið velt upp hvort þessar hörðu íslensku kröfur um umhverfismat þegar kemur að vegagerð hafi verið meinleg þýðingarvilla. Samkvæmt upplýsingum blaðsins Vestfirðir innan úr stofnunum ríkisins er það ekki talið líklegt. Bent er á að Skipulagsstofnun hafi á sínum tíma líklega verið falið það hlutverk að gera drög að reglugerðar- og lagatexta við innleiðingu reglugerðar ESB. Þar starfi einmitt fólk með mjög ákveðnar skoðanir á umhverfismálum og það telji að náttúra Íslands sé mun viðkvæmari en í öðrum löndum og þar af leiðandi eigi að viðhafa ítrustu kröfur sem unnt er að finna og jafnvel meira til. Ennfremur er bent á að það skjóti skökku við að sömu stofnun er síðan falið það hlutverk í löggjöfinni að halda utan um málaflokkinn og kveða upp alla úrskurði um mat á umhverfisáhrifum. Nýlega var úrskurðarhlutverkinu breytt í álit en eftir sem áður er Skipulagsstofnun algerlega ráðandi um það hvort af framkvæmdum geti orðið eins og sjá má í Teigsskógi. Annar vandi sem birst hefur glögglega í Teigsskógsmálinu er að umhverfismál eru orðin „kjósendavæn“ og stjórnmálaflokkar keppast um að vera sem fremstir á því sviði. Andstaða stjórnmálaflokks eða stjórnmálamanns við vegagerð um Teigsskóg hefur orðið á höfuðborgarsvæðinu a.m.k. nokkurs tákn um að viðkomandi væri trúverðugur í umhverfismálum. Fyrir vikið verða áhrif einstrengislegra embættismanna í einstökum stofnunum enn meiri. Þannig hefur það orðið nokkurs konar vörumerki hjá Vinstri grænum að vera á móti vegi um Teigsskóg og innan fleiri flokka njóta sambærileg sjónarmið umtalsverðs stuðnings.
Niðurstaðan er sú að vandinn liggi ekki í því að sett hafi verið lög um umhverfismat heldur í afar einstrengislegri túlkun og framkvæmd sem lítur framhjá því að umhverfismat er ætlað til þess að bæta framkvæmdir en ekki að koma í veg fyrir þær. Það skiptir máli að færa viðmiðanir um umhverfismat nær því sem almennt gerist innan evrópska efnahagssvæðisins og draga að sama skapi úr séríslenskum ákvæðum.
Kristinn H. Gunnarsson