Píratar hafa opnað fyrir skráningar frambjóðenda í prófkjörum um allt land og leita þeir nú að frambjóðendum. Hver sem er getur boðið sig fram í prófkjörinu ef viðkomandi skráir sig í flokkinn en aðeins þeir sem hafa verið skráðir í flokkinn í meira en 30 daga hafa atkvæðisrétt.
Framboðsfrestur í öllum kjördæmum rennur út laugardaginn 23. septemer klukkan 15.00. Kosning í kosningakerfi Pírata á x.piratar.is hefst sama dag og stendur í eina viku.
Fram kemur í fréttatilkynningu frá Pírötum að Reykjavíkurkjördæmin verði með sameiginlegt framboð. Í Reykjavíkurkjördæmunum, Suðvesturkjördæmi og Norðvesturkjördæmi verður opið prófkjör þar sem allir skráðir Píratar á landsvísu geta kosið.
Í Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi verður lokað prófkjör þar sem aðeins þeir skráðu Píratar sem hafa atkvæðisrétt í hvoru kjördæmi fyrir sig hafa atkvæðisrétt.
Hér er hægt að sjá yfirlitssíðu prófkjöra Pírata vegna komandi Alþingiskosninganna og er þar hægt að velja kjördæmi til að fá nánari upplýsingar um prófkjörsreglur í hverju kjördæmi fyrir sig.