Gunnar Bragi Sveinsson oddviti Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi segir að hann viti til þess að unnið sé gegn honum í flokknum með það að markmiði að koma honum af lista Framsóknarflokksins fyrir Alþingiskosningarnar 28. október næstkomandi. Gunnar Bragi segir að hann hafi hins vegar engar áhyggjur af stöðu sinni.
Samkvæmt heimildum Eyjunnar gefst ekki tími til fyrir prófkjör eða tvöföld kjördæmisþing þar sem of skammt er til kosninga, því muni uppstillingarnefndir í sumum eða öllum kjördæmum sjá um að stilla upp á lista.
Gunnar Bragi á von á því að uppstillingarnefndin vinni á sanngjarnan hátt og því hafi hann ekki áhyggjur af stöðu sinni:
Ég hef engar áhyggjur. Ég býð mig fram aftur og tel mig geta gert gagn. Ég fer bara í þetta með hagsmuni flokksins í fyrirrúmi,
segir Gunnar Bragi. Hann segir að hann viti til þess að unnið sé gegn honum að tjaldabaki í flokknum:
Ég tel mig hafa sterkt bakland, en ég veit að það er unnið gegn mér.