Stjórn Sambands ungra Sjálfstæðismanna, SUS, lýsir yfir fullu trausti til Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra og hafnar því alfarið að Sjálfstæðisflokkurinn sýni léttuð þegar komi að kynferðisafbrotum.
Í fyrradag sendi Heimdallur, félag ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík, frá sér ályktun þar sem lýst var yfir vonbrigðum með Sigríði Á. Andersen vegna trúnaðarbrests í starfi.
Ályktun Heimdallar fengu vægast sagt dræm viðbrögð á Fésbók og virtist það sem svo að þeir einu sem stuttu ályktunina væru pólitískir andstæðingar Sjálfstæðisflokksins, Vilhjálmur Þorsteinsson fyrrverandi gjaldkeri Samfylkingarinnar sagði þetta hugrakka ákvörðun og bæði Viktor Orri Valgarðsson varaþingmaður Pírata og Pawel Bartoszek þingmaður Viðreisnar lýstu velþóknun sinni á ályktuninni. Aðrir voru ekki hrifnir. Sagði Gísli Freyr Valdórsson fyrrverandi aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur:
Þessi svokallaða ályktun er Heimdalli til skammar. Það er ljóst að þeir sem hana skrifuðu hafa ekkert kynnt sér málið.
Fleiri tóku í sama streng, sagði Andrea Sigurðardóttir:
Sorgleg ályktun sem ég tek ekki undir. Leiðinlegt að sjá stjórn Heimdallar taka undir pólitískar keilur andstæðinga flokksins, þegar búið er að gera grein fyrir af hverju upplýsingum var miðlað með þeim hætti sem var gert og m.v. það sem ég hef lesið mér til hefur hún ekki brotið trúnað.
Arnar Sigurðsson sagði:
Þessi ályktun er einhver sorglegasti kjánaskapur í sögu Heimdallar.
Kristinn Hugason sagði:
Á þessum bæ er eitthvað mikið að. Og bærinn er núverandi stjórn Heimdallar.
Bergur Þorri Benjamínsson spurði: „Hvað bull ályktun er þetta?!“
Skoðanaskipti rista ekki djúpt
Ingvar Smári Birgisson formaður SUS segir í samtali við Eyjuna að ályktun SUS í dag hafi ekki verið beint gegn ályktun Heimdalls frá því á sunnudaginn, það sé ekkert skrítið að innan stórrar ungliðahreyfingar séu margar ólíkar skoðanir. Ingvar segir að stjórn SUS hafi verið hvött til að tjá sig um stjórnarslitin og mál tengd uppreist æru síðustu daga, í gær hafi svo stjórnin fundað með dómsmálaráðherra um málið og sammælst um ályktunina í kjölfarið:
Þetta er ekki í fyrsta og örugglega ekki í síðasta skipti sem Sjálfstæðismenn eru ósammála um eitthvað og það tekur því held ég enginn persónulega. Í ungliðahreyfingunni eru þúsundir manna skráðir, tugir þúsunda í flokknum. Skoðanaskipti af þessu tagi rista ekki djúpt, engan veginn. Fólk lýsir bara sinni skoðun og þær eru bara margbreytilegar,
segir Ingvar Smári. Hann upplifir það að skoðanaskipti innan flokksins séu heilbrigður hluti af stjórnmálum, þegar hann hafi sjálfur verið formaður Heimdallar hafi félagið gagnrýnt flokkinn sem og aðra flokka:
Það var aldrei tekið illa í það og oft hefur fólk skilning á því. Það er alveg eðlilegt. Heimdallur sendi frá sér þessa ályktun og það voru skiptar skoðanir um hana, eins og eðlilegt er.