fbpx
Sunnudagur 20.júlí 2025
Eyjan

Viðtal við bændur á Bjarteyjarsandi: „Hefur það ekki gildi að sjá að það býr fólk í sveitum landsins?“

Ritstjórn Eyjunnar
Laugardaginn 23. september 2017 11:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðmundur og Arnheiður á Bjarteyjarsandi í Hvalfirði.

Það er friðsæld yfir Bjarteyjarsandi í Hvalfirði þegar bærinn er sóttur heim að morgni annars mánudags í september. Þarna er stórt sauðfjárbú og ferðaþjónusta. Daginn áður var lokið fyrri leitum og réttum. Féð er komið heim í tún þar sem það slakar á í haustbeitinni.Ferðamönnum er tekið að fækka. Það er komið haust. Við hittum fyrir hjónin og bændurna Guðmund Sigurjónsson og Arnheiði Hjörleifsdóttur. Þau sinna rekstrinum á Bjarteyjarsandi í dag. Hingað erum við komin til að ræða einmitt við þau. Guðmundur og Arnheiður eru dæmi um bændur sem hafa tvinnað saman búskap og ferðaþjónustu með afar áhugaverðum hætti.

Úr Hvalfirði og frá Akranesi

Guðmundur er sjálfur uppalinn á Bjarteyjarsandi þar sem foreldrar hans þau Sigurjón Guðmundsson og Kolbrún Eiríksdóttir bjuggu um áratugaskeið. Um síðustu aldamót var komið að kynslóðaskiptum. Þau Guðmundur og Arnheiður fluttu að Bjarteyjarsandi 2001. Sjálf er Arnheiður frá Akranesi þar sem hún ólst upp.

Við kynntumst í Fjölbrautaskólanum á Akranesi þar sem við vorum bæði í skóla. Ég hafði verið í sveit á sumrin sem stelpa. Ég ætlaði að verða sveitakona en hafði engin fjölskyldutengsl til þess. Ég var alla tíð reiðubúin til að setjast að í sveitinni. Þegar ég var 16 ára ákvað ég að ég skyldi bara ná mér í bónda. Ég var ekki flutt nauðug hingað að Bjarteyjarsandi,

segir Arnheiður og hlær dátt.Áður en kom að því að þau flyttu heim á foreldraarfleifð Guðmundar höfðu þau búið nokkur ár í Reykjavík. Guðmundur er lærður smiður og stundaði iðn sína en Arnheiður lagði stund á nám í umhverfisfræðum. Þegar þau fluttu að Bjarteyjarsandi og tóku við helmingnum af búinu komu þau reyndar beint frá Kanada. „Ég var í meistaranámi í umhverfisfræðinni úti í Kanada. Þar fundum við bæ rétt norður af Halifax í Nova Scotia þar sem voru íslenskir hestar. Guðmundur fór að vinna þar við að víkka sjóndeildarhringinn og starfaði fyrir moldríka Svisslendinga. Þarna vorum við í rúmt hálft á meðan ég lauk náminu. Síðan snerum við aftur heim til Íslands og fluttum þá hingað að Bjarteyjarsandi,“ útskýrir Arnheiður.

Breytingar og uppbygging

Þarna var Bjarteyjarsandur sauðfjárbú með um 500 vetrarfóðrað fé. Þau tóku við helmingnum af þessu en unnu jafnframt með búskapnum. Guðmundur hélt áfram að stunda smíðar en Arnheiður fékk vinnu við umhverfismál hjá fyrirtækinu UMÍS í Borgarnesi sem þá var nýstofnað af Stefáni Gíslasyni umhverfisfræðingi. Þar kom hún til með að vinna næstu tíu árin.

Reksturinn á Bjarteyjarsandi vatt þó fljótt upp á sig. „Hér fluttum við inn í gamla íbúðarhúsið. Áður en við fluttum hingað í Hvalfjörðinn höfðum við einnig komið að ýmsum störfum hér meðan við bjuggum í Reykjavík. Hérna var til dæmis byrjað að taka á móti hópum skólabarna árið 1999. Eiginleg ferðaþjónustan hófst upp úr aldamótum. Við hófum rekstur á tjaldstæði hér. Það byrjaði eiginlega á því að hjólreiðafólk sem var á leið um Hvalfjörð beiddist gistingar hér. Þetta vatt síðan upp á sig og hingað fóru að koma bæði einstaklingar og skipulagðir hópar,“ segir Guðmundur.

Arnheiður bætir við: „Hér var gamalt fjós og hlaða sem við breyttum fyrir ferðaþjónustuna og aðstöðu til að selja sauðfjárafurðir beint frá býli. Það var búin til eldhúsaðstaða og hlaðan varð veitingasalur. Við sáum fyrir okkur möguleika á koma kjötinu út á markað meðal annars með því selja það til ferðamanna.“

Þegar búskapur lagðist af á Þyrli 2005 þá keyptu þau á Bjarteyjarsandi fé þaðan og fjölguðu þannig í um 600 fjár. Búsmalinn í dag er í þeirri tölu.

Tækifæri í ferðaþjónustu

Hugmyndin um að þróa búrekstur á Bjarteyjarsandi sem tvinnaðist saman við ferðaþjónustuna tók á sig skýrari mynd. Hér fór kannski ekki síst saman mikil reynsla og þekking Bjarteyjarsandsfólksins á sjálfum landbúnaðinum og menntun Arnheiðar í umhverfisfræðunum á stað sem býr yfir mikill náttúrufegurð. Þau sáu tækifæri í því að líta til ferðamannanna.

„Við bjuggum okkur á vissan hátt til einstakar markaðsaðstæður verandi með alla þessa hópa sem komu hingað. Þetta voru íslenskir gestir sem komu hingað í sveitina með skólahópum allt frá leikskólaaldri, grunnskólum, framhaldsskólum og erlendum háskólum. Þarna mynduðust jákvæð tengsl og brú var byggð milli þéttbýlis og dreifbýlis með því að bjóða fólki að koma í sveitina og upplifa hana á sem jákvæðastan hátt. Skólabörnunum fylgja foreldrar, kennarar og annað starfsfólk. Þarna varð eiginlega til af sjálfu sér eftirspurn sem við sjálf áttuðum okkur ekki fyllilega á í byrjun. Eitt leiddi af öðru. Fólk fór að spyrja okkur hvort það gæti ekki komið hingað að sumarlagi til að halda ættarmót og aðra svipaða viðburði. Hér var jú aðstaða til slíks. Síðan fórum við að fá fyrirspurnir um hvort fólk gæti ekki komið í réttirnar, hvort það gæti ekki keypt af okkur kjöt og áfram má telja. Það fór að byggjast upp viðbót við hinn hefðbundna búskap. Þegar við byrjuðum hér um og upp úr aldamótum þá vorum við kannski ekki endilega búin að sjá þetta fyrir. Við höfum leyft þessu að þróast án þess að taka nein heljarstökk. Með tímanum höfum við byggt jafnt og þétt við þetta samhliða því að við höfum fundið út hvar og hvernig við viljum starfa og standa að þessu. Yfirbyggingin á þessu er ekki mikil en reksturinn hefur vissulega verið að bólgna út og verða umsvifameiri.“

Tenging við búskapinn

Fjölbreytt dýrahald er á Bjarteyjarsandi. Það er öðrum þræði til að gleðja ferðamennina og hópana sem koma í heimsókn. Á bænum má finna geitur,svín, hesta, hænur, hunda og gæsir. Svínin leggja reyndar sitt til kjötframleiðslunnar. „Við höfum verið að framleiða um það bil tonn af grísakjöti á ári. Svínin okkar ganga laus úti. Þau njóta frelsis og það er alveg markaður fyrir kjöt af slíkum dýrum. Afurðir af þeim skapa líka meiri fjölbreytni í vöruúrvali frá búinu.“

Guðmundur segir að í upphafi hafi ætlunin verið sú að tengja kjötframleiðslu búsins við ferðaþjónustuna.

Við vorum að fá fyrirspurnir og sáum ákveðna möguleika á því að skapa virðisauka í afurðum búsins. Við höfum búið til og byggt upp þetta vörumerki sem er „Bjarteyjarsandur.“ Kjötafurðirnar eru seldar undir því nafni. Við förum til dæmis á ýmsa matvælamarkaði á höfuðborgasvæðinu og jafnvel erlendis. Þar sjáum við öðrum þræði möguleika á því að kynna ferðamannastaðinn Bjarteyjarsand í leiðinni. Á svona mörkuðum er maður kannski að hitta og sjá fleiri þúsund manns yfir heila helgi. Þetta fer ágætlega saman að selja afurðir frá búinu og jafnframt auglýsa það sem ferðaþjónustufyrirtæki í leiðinni. Við náum góðum og nánum tengslum við viðskiptavinina. Við höfum oft horft á afurðasöluna sem auglýsingu fyrir staðinn. Við erum sýnileg við að selja kjötafurðir og fáum þá kannski samhliða því fyrirspurnir um það hvort við getum ekki tekið við hópum ferðamanna.

Arnheiður bætir því við að ferðaþjónustan og búskapurinn með framleiðslu og sölu afurða fari mjög vel saman. „Þetta styður hvort annað með ótrúlega jákvæðum hætti.“

Selja eigin afurðir

Þau ræða þetta nánar. Í reynd hverfist þetta um búreksturinn. „Við sendum sláturféð frá okkur í sláturhús á haustin. Það eru svona um 800 skrokkar. Af því fáum við svo eitthvað í kringum 130 til 150 skrokka hingað heim aftur sem við vinnum úr sjálf og seljum. Við höfum ekki lagt mikla áherslu á að vera að selja heila skrokka. Frekar seljum við til gesta og ferðamanna sem koma hingað. Svo erum við með matsöluleyfi hér í salnum í gömlu hlöðunni og þar eru oft haldnar veislur. Það er betra upp úr því að hafa að framreiða lambakjötið eldað hér fyrir hópa sem koma hingað heldur en að selja heila og hálfa frosna skrokka. Við reykjum líka kjöt og seljum svo sem hangikjöt til jólanna. Við einbeitum okkur að því að selja okkar afurðir sjálf, annaðhvort hér á Bjarteyjarsandi, beint út til fastra viðskiptavina eða á matsölumörkuðum svo sem á Matarhátíðinni í Hörpunni. Okkar afurðir eru hvergi í verslunum.“

Nú þegar haustar dregur úr ferðamannaumferðinni en þá tekur annað við. „Þetta er mikil vinna,“ segir Guðmundur. „Nú eru göngur og réttir og síðan tekur við sláturtímabil og kjötvinnsla og síðan dreifing á afurðum til viðskiptavina. Segja má að maður sé alltaf búinn að fá alveg nóg þegar Þorláksmessudagur rennur upp,“ segir hann og kímir.

Veitingar og eigin matseðill

Göngum og réttum fylgja þó ákveðin tækifæri sem eru nýtt. „Við erum með gesti sem hafa verið hér og upplifa réttir og smalamennsku. Þegar þau fara héðan þá vilja þau kaupa kjötafurðir héðan af búinu. Það eru þá smáir skammtar sem fara til einstaklinga. Þetta er svona dæmi um það hvernig við getum nýtt okkur þau tækifæri sem við höfum til að selja.“

Skólafólkið kemur enn í hópum að Bjarteyjarsandi. „Þetta er hins vegar að mestu bundið við sex vikna tímabil á ári hverju. Það er svona frá miðjum apríl fram í skólalok í fyrri hluta júnímánaðar. Þarna er sauðburðurinn og mikill álagstími á búinu,“ segir Arnheiður. Þau segja að þessir hópar skipti ekki síst máli vegna þess að þeir lengi aðal ferðamannatímabilið. „Hjá okkur hefst aðal ferðavertíðin í apríl og varir fram í miðjan  september. Svo er líka ýmislegt um að vera á öðrum árstímum. Það eru líka heimsóknir hingað utan þessa tímabils.“

Arnheiður nefnir líka að það kalla megi „lausaumferð“ sem er þá umferð utan við hina skipulögðu hópa hafi einnig verulega þýðingu.

Það er mjög mikil umferð ferðamanna að fossinum Glym í Botnsdal. Meirihlutinn fer reyndar um veginn sunnanvert í Hvalfirði og svo aftur sömu leið til baka. Fólkið fer síður hringinn umhverfis fjörðinn. Á hinn bóginn er samt nokkuð jöfn umferð um Hvalfjörðinn hér að norðanverðu. Í sumar tókum við upp þá nýlundu að vera með fastan matseðil hér í veitingasalnum þar sem við höfðum opið alla daga fyrir lausaumferð. Fólk gat þannig komið hér við á ferð um Hvalfjörðinn og fengið sér að borða án þess að hafa pantað fyrirfram. Þetta gafst vel. Með því að setja fram matseðil þá var miklu meiri sala hér heldur en hefur verið, jafnvel þó að umferðin um þjóðveginn væri ekki mikið að aukast. Þetta er jákvæð þróun.

Margbrotið dæmi sem gengur upp

Arnheiður segir að í heild gangi þessi útfærsla þeirra á búreksti með ferðaþjónustu vel. „Við höfum stundum rætt það okkar á milli að ef við værum bara með afurðasölu „beint frá býli,“ eða bara með tjaldsvæðið eða veitingasalinn, þá væri þetta runnið út í sandinn því það hefði ekki borgað sig. En með því að hafa þetta allt þá tengist það innbyrðis undir þessu vörumerki sem er bara „Bjarteyjarsandur.“ Þannig gengur þetta upp.“

Markmiðið þeirra hjóna var í upphafi að skapa báðum atvinnugrundvöll hér þannig að þau gætu bæði starfað heima á Bjarteyjarsandi.

Það hefur tekist. Nú höfum við aðeins þurft að bregðast við lægri afurðaverðum. Í dag er ég að kenna landbúnaðartengda ferðaþjónustu við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og byggi þá á eigin reynslu héðan ásamt menntun  minni. Kennsluna stunda ég þó öðrum þræði líka vegna þess að mér finnst hún skemmtileg. Þegar maður býr og starfar á sama stað eins og hér á Bjarteyjarsandi þá er gott að geta komist líka aðeins í burtu. Mér finnst mjög gaman að kenna, hitta yngra fólk og vera aðeins í hringiðunni,

segir Arnheiður. Eiginmaður hennar hefur ekki leitað eftir vinnu utan rekstrarins á Bjarteyjarsandi. „Viðveran er bara svo mikil við reksturinn hér á Bjarteyjarsandi. Þetta er engin reglubundin vinna frá átta á morgnana til fimm síðdegis. Maður þarf alltaf að vera við, alla daga vikunnar jafnvel langt fram á kvöld, ekki síst til að þjónusta ferðamennina. Svo detta inn óvæntar fyrirspurnir til dæmis um það hvort við getum haldið segjum kannski 20 manna veislu næstkomandi föstudag. Það þarf að bregðast við því og þannig er ekkert hægt að lofa sér í vinnu annars staðar. Maður verður að vera við og reiðubúinn að taka því sem að höndum ber.“

Seglum hagað eftir vindi

Eftir að Arnheiður nefndi lækkun afturðaverðs í sauðfjárræktinni beinist tal okkar að stöðunni í þeirri grein landbúnaðarins. „Auðvitað finna allir fyrir þessu. Hjá okkur er salan á sláturfé til sláturhúss og afurðastöðva um það bil helmingur af okkar afkomu. Lækkun á afurðaverði hefur bein áhrif á þann hluta rekstrarins. Á hinn bóginn liggja aukin tækifæri í uppgangsgreininni nú sem er ferðaþjónustan. Við reynum að lesa þessar aðstæður þannig að við leitum tækifæra til að sækja fram innan hennar til þess að vega upp á móti þeim skakkaföllum sem verða vegna lækkunar á lamba- og kindakjöti,“ segir hún.

Guðmundur segir að núverandi staða sé sorgleg þar sem höggvið sér mjög nærri mörgum sauðfjárbændum. „Svona ástand bitnar á öllum. Líka á okkur sem seljum beint frá býli. Við verðum þó ekki vör við neina sölutregðu á því sem við tökum hingað heim. Hins vegar finnum við fyrir því að framboðið á kjöti beint frá búum er að aukast því bændur sækja frekar í það núna að taka það heim og selja sjálfir. Verðin eru lægri og umhverfið er breytt. Í mörg ár höfum við selt frosið og ferskt kjöt, sagað, pakkað, úrbeinað og kryddað eins og neytandinn óskar. Verðin hafa haldist nánast óbreytt frá því við byrjuðum á þessu fyrir einum átta árum síðan. Þess vegna höfum við verið að leggja aukna áherslu á að auka söluna á kjöti sem er matreitt og borið fram hér á Bjarteyjarsandi því í því liggur virðisaukinn.“

Sóknarfæri tengd ferðamönnum

Arnheiður segir að við þessa framreiðslu heima á Bjarteyjarsandi séu þau alltaf með stutta kynningu þar sem gestum er sagt frá hvert þeir séu komnir og fyrir hvað þau standi á Bjareyjarsandabúinu. „Við fylgjum því svo eftir með mat frá okkur, sem við erum búin að rækta, ala, elda og berum fram. Með þessu sköpum við ákveðna sögu og matarminningu fyrir gestina. Með þessu sköpum við líka tengsl sem gefa okkur mikið. Fólk spyr ýmissa spurninga. Við höfum áttað okkur betur á því hver sérstaða íslenskrar sauðfjárræktar einmitt er, með því að svara þessum fyrirspurnum. Við spyrjum gjarnan fólk að því af hverju það sé að spyrja um tiltekna þætti og þá fáum við þau svör að þetta sé svona eða hinsegin heima hjá þeim. Með því að gera okkur betur grein fyrir okkar sérstöðu getum við lagt betri áherslu á þá þætti sem skapa hana. Við ættum að gera meira af því að koma þessari sérstöðu til skila til þeirra ferðamanna sem sækja landið heim. Það er enginn smá viðskiptamannahópur í tengslum við hugsanlega sölu á lambakjöti.“

„Ég held að stærsta sóknarfærið okkar í lambakjötinu felist í að reyna að koma því til skila til erlendra ferðamanna sem koma hingað til lands að þeir verði að smakka það. Ef við komumst á það stig þá verður ekkert vandamál með sölu á lambakjöti,“ segir Guðmundur. Arnheiður svarar að bragði:

Þetta er ekkert óraunhæft. Það er miklu auðveldara að selja íslenskar afurðir fólki sem er búið að ákveða að koma til Íslands að kynna sér land og þjóð heldur en að vera að flytja út vöru eins og lambakjöt og reyna að selja þar í afar fjölmennum löndum. Þau sem koma hingað eru markhópur.

Guðmundur: „Ferðamennirnir sem koma hingað sjá féð okkar uppi á fjöllum og um hálendi og verða strax forvitnir og byrja að spyrja um hluti eins og það hvernig við förum að því að ná því aftur heim. Þarna kviknar áhugi sem leiðir gjarnan til þess að fólk vill fá að smakka og prófa afurðirnar.“

Mikil óvissa í niðurskurðartillögum

Við komum inn á tillögur Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur landbúnaðarráðherra Viðreisnar um að bændum verði boðið fé fyrir að hætta sauðfjárrækt og fé í landinu verði fækkað um 20 prósent.

Það er meira en að segja það að ætla að bregða búi og hætta sauðfjárrækt. Þú þarft jafnvel þrátt fyrir það að hirða áfram um girðingar, húsakost og fleira. Það fylgir því mikill kostnaður að vera með jörð og halda henni við, ég tala nú ekki um þegar þú ert ekki að nota hana til búrekstrar. Að hætta búskap er mjög stór ákvörðun, að ekki sé talað um að gera það nú á þessum árstíma í september þegar búið er að heyja og gera áætlanir. Samkvæmt hugmyndum landbúnaðarráðherra verður bóndi að farga öllu nú í haust ætli hann að fá fullar bætur fyrir. Ef ekki þá koma til skerðingar á bótum.

Arnheiður bendir á mannlega þáttinn sem snúi að því hvort fólk sé reiðubúið að hætta sinni vinnu og snúa baki við ákveðnum lífsstíl. „Ég hef ekki hitt neinn sem finnst að tillögur stjórnvalda sé lausnin. Svo veit enginn hvaða áhrif þessar aðgerðir hefðu á byggðaþróun.“

 

Skapast nýr vandi?

„Það hætta kannski fimm í einni sveit en tveir halda áfram. Þessir tveir hafa hins vegar kannski engar forsendur lengur til þess þegar svo fáir sauðfjárbændur eru eftir í sveitinni. Það er ekki einu sinni til mannskapur að sinna smölun,“ segir Guðmundur.

Svo verða það kannski bestu sauðfjárjarðirnar sem hætta. Trúlega er það líka svo að þeir sem hafi ekki tækifæri á að finna aðra vinnu á heimaslóðum flytji hreinlega á brott því þeir geti ekki lifað á staðnum eftir að búskapnum er hætt.

Arnheiður spyr að bragði hvort þetta skapi þá ekki bara nýjan vanda? „Þú leggur fram lausn á vandamáli sem er kannski ekki svo stórt í reynd eða þegar það er skoðað í stærra samhengi. Þessi meinta lausn getur hæglega búið til nýjan og öðruvísi vanda. Við verðum líka að gæta að því að sauðfjárbændur eru víða líka eins konar lím í sínum sveitum. Þeir hafa svigrúm til að sinna kannski skólaakstrinum eða halda annarri starfsemi gangandi innan samfélagsins og fer vel við búreksturinn. Brotthvarf þeirra getur því haft margvíslegar afleiðingar. Viljum við ekki líka hafa byggð í landinu? Hefur það ekki gildi að sjá að það býr fólk í sveitunum?“

Með þessari spurningu látum við lokið þessu viðtali við þau Guðmund og Arnheiði á Bjarteyjarsandi í Hvalfirði.

Texti: Magnús Þór Hafsteinsson

Birtist í landshlutablaðinu Vesturlandi: 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Sigmar Guðmundsson: Fundarslit Hildar Sverrisdóttur settu aukna hörku í þinglokin

Sigmar Guðmundsson: Fundarslit Hildar Sverrisdóttur settu aukna hörku í þinglokin
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Dineout og Heimar umbreyta upplifun gesta í mathöllum – ein greiðsla, margir staðir

Dineout og Heimar umbreyta upplifun gesta í mathöllum – ein greiðsla, margir staðir
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þingfundur hefst kl. 10 – Þrjú mál á dagskrá fyrir sumarfrí

Þingfundur hefst kl. 10 – Þrjú mál á dagskrá fyrir sumarfrí
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Björn Jón skrifar: Til varnar Íslandssögu Jónasar frá Hriflu

Björn Jón skrifar: Til varnar Íslandssögu Jónasar frá Hriflu
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigurður Hólmar skrifar: Réttindabrot gegn fötluðum og öldruðum einstaklingum

Sigurður Hólmar skrifar: Réttindabrot gegn fötluðum og öldruðum einstaklingum
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Stalín er ekki lengur hér

Óttar Guðmundsson skrifar: Stalín er ekki lengur hér