fbpx
Sunnudagur 20.júlí 2025
Eyjan

Ásta: Skipulag miðbæjar

Ari Brynjólfsson
Fimmtudaginn 21. september 2017 19:32

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar.

Ásta S. Stefánsdóttir skrifar um málefni miðbæjarins:

Skipulagsferli vegna miðbæjar Selfoss er nú að komast á lokastig. Fresti til að gera athugasemdir lauk í lok ágúst og voru athugasemdir þær sem bárust lagðar fram á fundi skipulags- og byggingarnefndar sl. miðvikudag. Nefndin fól formanni nefndarinnar, skipulags- og byggingarfulltrúa og lögmanni sveitarfélagsins að gera drög að svörum við athugasemdum og hefur verið unnið að því síðustu daga. Útlit er fyrir að unnt verði að koma til móts við talsverðan fjölda athugasemda og verða drög að svörum lögð fyrir nefndina á næstu dögum. Að afgreiðslu nefndarinnar lokinni fær bæjarstjórn málið til endanlegrar afgreiðslu.

Verði niðurstaða bæjarstjórnar sú að samþykkja skipulagið verður það sent Skipulagsstofnun til afgreiðslu. Skipulagsstofnun, sem er óháð sveitarfélögunum, fer yfir tillöguna, gætir þess að hún sé í samræmi við aðalskipulag og að öllum athugasemdum hafi verið svarað með fullnægjandi hætti. Afgreiðsla stofnunarinnar getur tekið tvær vikur, samþykki hún skipulagið athugasemdalaust verður það auglýst í B-deild Stjórnartíðinda og öðlast þar með gildi.

Markmið skipulagsins

Markmiðum tillögunnar er lýst í greinargerð, sem er hluti af tillögunni, og eru þau eftirfarandi:

að stuðla að frekari eflingu miðbæjarsvæðisins með blandaðri byggð verslunar, þjónustu, og íbúða sem nýtist jafnt heimamönnum sem gestum. Þar verður lögð áhersla á alhliða miðbæjarstarfsemi og ferðaþjónustu, samhliða því að styrkja miðbæjargarð með bættum tengingum við garðinn. Stefnt er að því að miðbærinn geti orðið fjölsóttur áningarstaður fyrir ferðamenn og sumarhúsagesti ásamt því að vera samkomustaður fyrir bæjarbúa. Lögð er áhersla á að skapa fjölbreytt umhverfi í manneskjulegum kvarða þar sem dvalar- og göngusvæði njóta skjóls gagnvart ríkjandi vindáttum og snúi móti sól.

 

Sigtúnsgarður

Stór hluti af skipulagssvæðinu er Sigtúnsgarður, og hefur hann mikið hlutverk í hugum íbúa sveitarfélagsins. Áður en athugasemdafresti lauk varð að samkomulagi milli Árborgar og framkvæmdaraðila að lagðar yrðu kvaðir á lóðirnar syðst á svæðinu, þær sem liggja að garðinum, þess efnis að þar verði um almenningsrými að ræða og að Árborg fari með umráð þeirra og geti þannig skipulagt og hannað þau svæði með Sigtúnsgarði.

Kvaðirnar verða færðar inn í skipulagið og teknar upp í lóðarleigusamninga. Garðurinn verður því um 23.200 fermetrar en er í dag um 22.800 fermetrar og tryggt verður í skipulagsskilmálum að engar girðingar verða í garðinum, eins og einhverjir hafa óttast. Með stækkun garðsins breytist lega hans, en útivistargildi hans minnkar ekki. Stækkun garðsins kemur m.a. til vegna þess að stór hluti Hafnartúnslóðarinnar fellur undir garðinn. Um er að ræða lóð í eigu framkvæmdaraðila, sem afsala henni, ásamt öðrum lóðum í sinni eigu inni á reitnum, til sveitarfélagsins.

Samráð

Skipulagsferli er formlegt og nokkuð formfast ferli þar sem tillögur eru kynntar og auglýstar og gefinn kostur á mjög víðtæku samráði. Hver sem er getur gert athugasemdir við skipulagstillögu, gera þarf það formlega en þó ekki formlegar en svo að tölvupóstur dugir. Hægt er að gera athugsemd við einstaka liði tillögunnar eða tillöguna í heild. Skipulagstillagan sem hér um ræðir á sér nokkuð langan aðdraganda og má segja að kynningarferli hafi hafist löngu áður en eiginleg deiliskipulagstillaga var lögð fram fyrir um einu og hálfu ári síðan og formlegt ferli hófst.

Á undirbúningstíma var tekið tillit til óformlegra athugasemda og höfðu þær áhrif á mótun endanlegrar tillögu. Síðasta vor var skipulagstillagan auglýst og bárust nokkrar athugasemdir. Tekið var tillit til hluta þeirra og tillagan auglýst að nýju og enn gefinn kostur á samráði. Tillagan, og hugmyndir framkvæmdaaðila um útlit húsa, hefur fengið mikla kynningu í staðarblöðum og á netinu. Haldnir hafa verið formlegir sem óformlegir fundir allt frá því að fyrstu hugmyndir litu dagsins ljós.

Að mínu mati er hér tækifæri til mun meira samráðs í mun meiri smáatriðum heldur en ef haldin er íbúakosning um tillögu og valmöguleikarnir eru aðeins já eða nei, að hafna alfarið eða fallast alfarið á tillögu. Það er gjarnan svo að fólki hugnast eitthvað í tillögu, en annað ekki, og með því að gera athugasemdir við það sem fólki hugnast ekki þá þarf að fara yfir það og mæta þeim athugasemdum sem er hægt að mæta en svara öðrum með rökstuddum hætti.

Framkvæmdir

Fyrir liggur samningur við Sigtún Þróunarfélag um uppbygginguna á miðbæjarsvæðinu og áfangaskiptingu. Samningurinn er gerður með fyrirvörum um fjármögnun verkefnisins, þannig að tryggt sé að sjái fyrir enda í verkefninu þegar í upphafi. Samið hefur verið um að félagið annist alla gatnagerð, lagnavinnu, frágang gangstétta og torga og á móti komi að það greiði ekki gatnagerðargjöld. Lóðum verður úthlutað með hefðbundnum hætti með lóðarleigusamningum og afsala framkvæmdaraðila lóðum í sinni eigu til Árborgar.  Aðrar tekjur Árborgar af verkefninu munu felast í fasteignagjöldum af mannvirkjum, útsvari þeirra íbúa sem munu starfa á svæðinu og útsvari íbúa sem munu búa í íbúðum á svæðinu.

Áformað er að framkvæmdir geti hafist 1-2 mánuðum eftir samþykkt skipulagsins og fyrri áfangi verði tekinn í notkun sumarið 2018. Skipulagið gerir ráð fyrir blandaðri byggð verslunar og þjónustu, ásamt íbúðum á efri hæðum. Áformað er að í tveimur húsanna verði sýningar, annars vegar um mjólkuriðnaðinn og hins vegar um byggingarsöguleg efni.

Samkeppnishæfni

Á síðustu árum hefur verið unnið að því af hálfu sveitarfélagsins að gera það að eftirsóttum áfangastað en ekki stað þar sem fólk keyrir hratt í gegn eða velur að fara framhjá. Áætlanir Vegagerðarinnar um færslu Suðurlandsvegar munu væntanlega ganga eftir á næstu árum með nýrri brú rétt austan við bæinn. Því kann að fylgja hætta á því að hluti þeirrar umferðar sem við viljum í raun fá til okkar, fari framhjá. T.d. fólk sem annars myndi nýta sér þjónustu eða fara í verslanir.

Í því skyni að mæta þessu og gera Árborg að áfangastað þar sem fólk stoppar við og ferðamenn gista og nota þjónustu hefur t.d. verið byggt við Sundhöllina til að bæta aðstöðu þar, sveitarfélagið tók Tryggvaskála á leigu og framleigir til veitingarekstrar, unnið hefur verið með Vegagerðinni að skipulagi Austurvegar sem nota má þegar þungaumferð minnkar, áhersla hefur verið á gerð göngustíga víðsvegar um sveitarfélagið og er það viðvarandi verkefni, unnið er að verkefni um Verndarsvæði í byggð á Eyrarbakka með áherslu á sérkenni gömlu byggðarinnar og áfram mætti telja. Það verkefni sem skipulagið snýst um, uppbygging á miðbæjarsvæðinu, er í góðu samræmi við þessa vinnu bæjaryfirvalda sem miðar að því að gestir stoppi hér í sveitarfélaginu, kaupi sér gistingu og nýti sér þjónustu sem einnig er í boði fyrir heimamenn. Til þess þarf að vera í boði afþreying á borð við söfn og sýningar og fjölbreytta útivistarmöguleika, fjölbreytt veitingasala og önnur verslun og þjónusta. Þessir þættir laða líka að sér íbúa, enda er sívaxandi krafa um fjölbreytta afþreyingu og hvers kyns þjónustu í heimabyggð.

Birtist fyrst í Suðra. Smelltu hér til að lesa blaðið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Vísar á bug sögum um ESB-baktjaldamakk – „Stórar ákvarðanir eru ekki teknar nema með aðkomu þings og þjóðar“

Vísar á bug sögum um ESB-baktjaldamakk – „Stórar ákvarðanir eru ekki teknar nema með aðkomu þings og þjóðar“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Nína Richter skrifar: Gráða með gullrönd

Nína Richter skrifar: Gráða með gullrönd
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Vaka stýrir COLLAB

Vaka stýrir COLLAB
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sólin er komin

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sólin er komin