fbpx
Sunnudagur 27.júlí 2025
Eyjan

Aðskilnaður stjórnmála og viðskipta

Ari Brynjólfsson
Mánudaginn 23. október 2017 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samsett mynd/DV

Kristinn H. Gunnarsson skrifar:

Það sem helst má draga fram sem ástæðu stjórnarslitanna og snemmbúinna Alþingiskosninga er gífurlega uppsöfnuð gremja almennings út í klíkuskap og sérmeðferð útvalinna í þjóðfélaginu. Skemmst er að minnast þingkosninganna í fyrra sem urðu af sömu ástæðu. Panamaskjölin drógu fram að hópur fólks í þjóðfélaginu geymdi fé sitt erlendis og leyndi auðævum sínum. Ekki var endilega um lögbrot að ræða heldur fremur að vel tengdir og efnaðir einstaklingar nutu innherjaupplýsinga um stöðu fjármálakerfisins og nýttu sér rúmt svigrúm laganna til þess að flytja fé sitt milli landa í tæka tíð. Minna má á skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis sem staðfesti að nokkrir stjórnmálamenn voru tengdir viðskiptabönkunum á ábatasaman hátt fyrir þá.


Panamaskjölin

 

Mynd/EPA

Reiði almennings vegna uppljóstrunarinnar í Panamaskjölunum varð gífurleg og feykti tiltölulega vinsælum forsætisráðherra úr valdastólnum á augabragði og ríkisstjórnin varð að boða til kosninga. Þarna varð opinbert að til er á Íslandi þjóðfélagshópur sem deilir ekki kjörum með öðrum landsmönnum. Aðgangur að upplýsingum var lykilatriði og annað sem almenningi varð líka ljóst er að í þessum hópi auð- og valdamanna voru menn sem gátu ráðið miklu eða jafnvel öllu um löggjöf. Það er að sjálfsögðu mjög hentugt og skapar mikinn freistnivanda eins og það heitir á frekar kurteisu máli í hagfræðinni. Þegar menn svo falla í freistnina þá er það hreinræktuð spilling á öllum tungumálum, jafnvel íslensku.


Uppreistir en ærulausir

Að þessu sinni sauð upp úr þegar í ljós kom að afbrotamenn gagnvart börnum höfðu sumir hverjir fengið uppreista æru fyrr en meginregla laganna mælir fyrir um og án staðfestrar vitneskju um betrun. Fyrir almenningi birtist málið þannig að með því að þekkja réttu mennina væri hægt að fá sérmeðferð í kerfinu og því var svo reynt í lengstu lög að leyna. Annar Engeyingurinn í ríkisstjórninni var svo gersneyddur skilningi á alvarleik málsins að hann var settur af sem formaður flokksins til þess í nauðvörn að freista þess að bjarga flokknum undan reiði kjósenda. Í þessari atburðarás má segja að kristallist átakalínurnar í þjóðfélaginu. Það er uppreisn þjóðarinnar gegn sérstöðu og sérstakri aðstöðu útvalinna í þjóðfélaginu sem sigla annan sjó en almenningur.


Uppreisn gegn klíkuskap

 

Kristinn H. Gunnarsson ritstjóri Vestfjarða og fyrrverandi þingmaður.

Það er ekki aðeins klíkuskapur varðandi ærumálin heldur bætist sífellt í málafjöldann sem staðfestir að valdamiklir stjórnmálamenn hafa sérstakan aðgang að upplýsingum til þess að annað hvort að auðgast eða verjast fjárhagslegum skakkaföllum.
Engeyingarnir í ríkisstjórn eru svo umsvifamiklir í viðskiptalífinu að furðu sætir að þeir hafi nokkurn tíma til þess að sinna stjórnmálalegum skyldum sínum. Forsætisráðherrann er þó sýnu fremri að þessu leyti.
Upplýst er að hann fékk árið 2006, þegar allt var í vellukkunar standi 50 mkr kúlulán til þriggja ára til þess að kaupa ábatasöm hlutabréf. Skömmu fyrir hrun, þegar innvígðir höfðu upplýsingar sem almenningur hafði ekki um stöðu fjármálakerfisins, var skuldið færð yfir á félag og forsætisráðherrann losaður undan ábyrgð. Af því var svo afskrifað skuldbindingum upp á milljarða króna.

Á þessum tíma var núverandi forsætisráðherra umsvifamikill á fjármálamarkaði og varði háum fjárhæðum í fjárfestingar til skamms tíma í von um ábata. Það þarf ekki að stafa ofan í fólk að fjárfestir sem jafnfram er innsti koppur í búri í stærsta stjórnmálaflokki landsins á þeim tíma er ekki líklegur til þess að skilja rétt á milli eigin hagsmuna og almannahags.

Svo er hart barist fyrir auðmenn og spillta valdamenn að sett er lögbann á frekari upplýsingar um fjármálaumsvif Engeyinganna og sérstaklega um fráfarandi forsætisráðherra. Er nú bankaleyndin notuð sem skálkaskjól til þess að leyna sannleikanum í aðdraganda alþingiskosninga.


Borgun

 

Mynd/DV

Borgunarmálið er eitt málið sem þyrlar upp grunsemdum um innherjaupplýsingar fengnar í krafti ráðheraembættis hafi verið nýttar til fjárhagslegs ávinnings innan ættarinnar. Hlutur Landsbankans í Borgun var seldur á verði sem ekki tók tillit til vitneskju um að verðmæti Borgunar myndi hækka stórlega. Í Morgunblaðinu kom fram í ársbyrjun 2016 að ríkisbankinn Landsbankinn hefði tapað á annan tug milljarða króna á þessari „handvömm“. Fyrirtæki í eigu föðurbróður forsætisráðherrans, sem þá var fjármálaráðherra var aðili að kaupunum og hagnaðist vel.

Auðvitað er því haldið fram að allt séu þetta tilviljanir. Stundum má trúa því að svo hafi verið. En það þarf mikla trú til þess að afneita öllum þeim málum sem komið hafa upp og varðað hafa stjórnmálamenn og viðskiptalífið. Nóg er komið af gruggugum málum. Lögbannið tekur steininn úr ósvífninni. Heilbrigð stjórnmál verða fyrst með fullum aðskilnaði stjórnmála og viðskipta. Það er krafa almennings.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Að vera eða ekki vera umsóknarríki

Að vera eða ekki vera umsóknarríki
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Dagur fagnar heimsókn Ursulu von der Leyen – „Evrópa er því okkar náttúrulegi bandamaður“

Dagur fagnar heimsókn Ursulu von der Leyen – „Evrópa er því okkar náttúrulegi bandamaður“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Segir stjórnarandstöðuna bergmála rússneskan áróður og lygar – „Af hverju vill hægrið berjast gegn vestrænum gildum?“

Segir stjórnarandstöðuna bergmála rússneskan áróður og lygar – „Af hverju vill hægrið berjast gegn vestrænum gildum?“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

„Ég er hræddur um að stjórnarandstaðan sé gengin af göflunum“

„Ég er hræddur um að stjórnarandstaðan sé gengin af göflunum“
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Svarthöfði skrifar: Veit Guðrún Hafsteinsdóttir hvort hún er að koma eða fara?

Svarthöfði skrifar: Veit Guðrún Hafsteinsdóttir hvort hún er að koma eða fara?
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sigmar Guðmundsson: Stjórnarandstaðan reyndi ekki að koma neinum málum í gegn – var bara á móti öllu

Sigmar Guðmundsson: Stjórnarandstaðan reyndi ekki að koma neinum málum í gegn – var bara á móti öllu