Helgi Sigurðsson, skopmyndateiknari Morgunblaðsins, teiknar Jón Trausta Reynisson, ritstjóra Stundarinnar, sem mannætu í mynd dagsins í blaðinu. Aðalrétturinn hjá Jóni Trausta er svo Bjarni Benediktsson forsætisráðerra sem situr í súpunni í mannætupottinum,
Jón Trausti sér ekkert fyndið við teikninguna sem hann birtir á Facebook og spyr: „Hvers vegna er ég teiknaður sem mannæta í skopmynd Morgunblaðsins í dag?“ Jón Trausti svarar síðan spurningunni og segir teikninguna hluta af tilraun til þess að skrumskæla veruleikann á forsendum valdhafanna:
Manni gæti alveg þótt þetta fyndið ef þetta væri ekki hluti af samfelldri tilraun til að teikna upp brjálæðislegan veruleika á forsendum valdhafanna, þar sem fólk sem er flokkað sem óvinir er afskræmt og því eignaðar lágkúrulegar hvatir. Sami skopmyndateiknari hefur teiknað grínmynd af fjölda flóttamanna að drukkna í blóðbaði.
Við hlið myndarinnar er dálkurinn Staksteinar þar sem amast er við því að Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu hafi gagnrýnt lögbann á fréttaflutning Stundarinnar upp úr gögnum frá þrotabúi Glitnis.
Jón Trausti setur skopmyndina og Staksteina í ákveðið samhengi:
Þetta er hluti af því að framleiða veruleika. Þar eru einstakir einstaklingar með lágkúrulegar hvatir að ráðast gegn siðmenntuðum mönnum. Það er villimennska að sýna fram á að formaður flokksins komi sér í aðstæður hagsmunaáreksturs og segi ósatt um það. Innan þessa ramma verður valdbeiting gegn villimönnunum sjálfsögð og eðlileg.