Vilhjálmur Bjarnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði svar lögmanns Stundarinnar vera bull og yfirgaf fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Líkt og greint var frá í morgun fundar nefndin vegna lögbanns sýslumanns á Stundina. Fram kom í máli sýslumanns í morgun að lögbannið byggi á lögum og væri ekki frábrugðið öðrum lögbönnum, lögbannið sneri ekki að umfjöllun Stundarinnar um viðskipti Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins heldur að notkun á illa fengnum upplýsingum sem á ríkti þagnarskylda.
Spurði Vilhjálmur Sigríði Rut Júlíusdóttur lögmann Stundarinnar hvort það væri álit hennar að réttur blaðamanna trompaði öll lagaákvæði um þagnarskyldu sem mætti finna í íslenskum lögum, tók hann fram að þau ákvæði skiptu hundruðum.
Sigríður Rut svaraði:
Já.
Þá sagði Vilhjálmur:
Þá er ég farinn. Ég nenni ekki að sitja undir svona bulli.
Birgir Ármannsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins tók þá fram að Vilhjálmur væri á leið á annan fund.