Sjö stjórnmálaflokkar næðu mönnum á þing ef kosið yrði í dag. Vinstri græn yrði stærsti flokkurinn með 27% fylgi og 19 þingmenn. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar könnunnar Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 22% fylgi. Miðflokkurinn er þriðji stærsti flokkurinn með 11% fylgi.
Samfylkingin og Píratar mælast með 10% fylgi. Framsóknarflokkurinn fengi 7,5%. Viðreisn mælist með 5% fylgi og fengi þrjá þingmenn kjörna. Flokkur fólksins næði ekki manni á þing með 4%. Björt framtíð fengi svo aðeins 2%. Aðrir flokkar mælast samanlagt með 1,4% fylgi.
Vinstri græn fengu 19 þingmenn og Sjálfstæðisflokkurinn 15 þingmenn. Miðflokkurinn, Samfylkingin og Píratar fengju 7 þingmenn hvor. Framsóknarflokkurinn fimm þingmenn og Viðreisn þrjá.
Þetta þýðir að Vinstri græn, Samfylkingin og Píratar geta myndað 33 þingmanna meirihlutastjórn. Ekki yrði hægt að mynda þriggja flokka stjórn nema með aðkomu Vinstri grænna.
Könnunin var gerð í gær. Hringt var í 1.239 manns, það náðist í 806 manns. Svarhlutfallið var 65,1%. Alls tóku 68,8 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar. Um 9 prósent sögðust ekki kjósa eða ætla að skila auðu, 10 prósent sögðust vera óákveðin og rúmlega 12 prósent svöruðu ekki.