Framsóknarflokkurinn býður Gylfa Arnbjörnssyni forseta ASÍ á fræðslunámskeið um svissnesku leiðina á miðvikudaginn. Gylfi sagði svissnesku leiðina „galna“ í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun, sagði hann að með því að nýta það fé sem fer í greiðslur fyrstu tíu árin til íbúðarkaupa myndu lífeyrissgreiðslur á eftirlaunaaldri skerðast um fjórðung:
Hún er galin að því leyti til ef þú ferð með peninga út úr lífeyrissjóðnum þá ertu ekki lengur tryggður,
sagði Gylfi. Hættan við svissnesku leiðina sé að hún virki aðeins fyrir þá sem gangi í gegnum lífið áfallalaust, hér á landi séum við með skyldutryggingar lífeyris sem hjálpi til þegar einstaklingar lendi í áföllum, því sé fórnað í svissnesku leiðinni.
Lilja Alfreðsdóttir varaformaður Framsóknarflokksins segir í samtali við Eyjuna að með svissnesku leiðinni sé dregið úr miklum lántökum og hægt sé að koma í veg fyrir skerðingar á réttindum:
Eitt af því sem svissneska leiðin gengur út á er að þegar þú tekur úr lífeyrissjóðnum þínum þá greiðir þú til baka þegar fasteignin er seld, þannig að þú passar upp á að eignin þín skerðist ekki. Svo má útfæra það hvort þú bætir við,
segir Lilja. Svissneska leiðin henti þeim sem hafa farið snemma á vinnumarkað og hafi ekki gott aðgengi að sjóðum:
En það þarf líka að tryggja framboð á íbúðum, þess vegna erum við að boða stórátak í fjölgun hjúkrunarrýma og þjónustuíbúðum, því þegar framboðið eykst hjá eldri borgurum þá losnar húsnæði annarsstaðar. Þetta hefur virkað í Sviss og hefur reynst vel. Það virðist vera að Gylfi hafi ekki kynnt sér leiðina mjög vel, til dæmis hefur það farið framhjá honum að það eigi að setja iðngjaldið aftur inn til að passa upp á eignarmyndun. Þess vegna ætlum við að bjóða honum á fræðslufund á miðvikudaginn kl.11 og þá ætlum við að kynna honum þessa svissnesku leið og hvernig hún getur verið góð viðbót fyrir hans félagsmenn.