„Tveggja flokka stjórn VG og Sjálfstæðisflokks er útilokuð eins og staðan er í dag. Katrín Jakobsdóttir sér glitta í allt öðru vísi ríkisstjórn, sem obbinn af VG myndi gefa vinstri höndina fyrir að mynda. Katrínu langar síst í stjórn með Sjálfstæðisflokknum og baklandið myndi aldrei leyfa henni það. Jafnvel mjög langvinn og djúp stjórnarkreppa myndi varla opna á slíka ríkisstjórn nema þá með gerbreyttri forystu Sjálfstæðisflokksins.“
Þetta segir Össur Skarphéðinsson fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar á Facebook. Össur spáir í spilin og segir glitta í þriggja flokka stjórn VG, Samfylkingar og Pírata.
„Meirihlutinn, sem þessir þrír flokkar geta vænst eins og staðan er núna er naumur. Menn velta vitaskuld fyrir sér hvort hægt sé að stóla á Pírata í ríkisstjórn með nauman meirihluta. Innan raða VG var greinilegt lengi vel að á því höfðu menn litla trú. Ekkert býflugnabú þolir tvær drottningar og það voru jafnan litlar ástir milli Katrínar og Birgittu.“
Nú þegar Birgitta er farinn og Helgi Hrafn kominn í staðinn er staðan önnur.
„Helgi Hrafn er – hvað sem hann heldur sjálfur – ekkert annað en sósíaldemókratískur pragmatisti. Hann er rock-solid í samvinnu, laus við allar öfgar, hefur gaman af að vera “contrarian” í jaðarmálum og hefur sýnt að hann er óhræddur við að taka á baklandinu“.
Telur Össur að þessir þrír flokkar gætu átt auðvelda samvinnu og muni láta reyna á stjórnarmyndun þó að þeir fái jafnvel minnsta umboð til þess. Nái Viðreisn og BF ekki á þing gætu þessir þrír flokkar grætt á því. Þá segir Össur að Inga Sæland muni gera Framsókn grikk og tæta af flokknum fylgi á suðvestur horninu.
„Langsótt er þó að Framsókn þurrkist út af þingi. Hún verður hins vegar svo lemstruð og innantökur í kjölfarið svo miklar, að hún er ólíkleg til að verða stjórntæk. Eina vitið fyrir hana væri að fara í hvíld frá ríkisstjórnum, og freista þess að byggja sig upp,“ segir Össur og bætir við:
„Egill Helgason – u.þ.b. eini álitsgjafinn sem reglulega talar af viti þó hann sé alltaf að passa sig að styggja ekki gömlu valdaflokkana – veltir upp þeim möguleika að Framsókn yrði kölluð til liðs við flokkana þrjá undir forystu Katrínar. Sá möguleiki er þó miklu fjarlægari en Agli virðist. Ástæðan er þessi:
„Allt bendir til að hamfarir bíði Framsóknar í kosningunum. Sigmundur Davíð er á siglingu með Miðflokkinn, og mun með herópi gegn fjármálaöflum, okurvöxtum, verðtryggingu og vondum vogunarsjóðum (sem Framsókn féllst á að selja Arionbanka), yfirgnæfa og yfirkeyra Framsókn.“