Halla Björk Reynisdóttir flugumferðarstjóri situr í öðru sæti lista Bjartrar framtíðar í Norðausturkjördæmi, en athygli vekur að eiginmaður Höllu, Preben Pétursson, var oddviti listans í alþingiskosningunum í fyrra en komst ekki á þing.
Hótelstjóri í efsta sæti
Í fyrsta sæti listans fyrir þessar kosningar er Arngrímur Viðar Ásgeirsson, hótelstjóri og íþróttakennari. Halla Björk er bjartsýn á að Arngrímur komist á þing. „Ég held að við náum allavega einum manni inn. Það er það sem við erum að vinna að í augnablikinu. Svo ef til þess kemur, er ég tilbúin – ég myndi að sjálfsögðu ekki skorast undan.“
Listinn ekki tilbúinn
Halla segist ekki vita hvort Preben muni taka sæti á listanum. „Við erum bara búin að ráðstafa sex efstu sætunum, svo það getur vel verið að hann verði þarna neðar. Við höfum löngum deilt lífsgildum, við hjónin.“