Silja Dögg Gunnarsdóttir skrifar:
Úrsögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar úr Framsóknarflokknum hefur eðlilega vakið mikla athygli og það að þessi fyrrverandi formaður flokksins boðar stofnun nýs stjórnmálaafls og framboðslista í öllum kjördæmum.Reykjanes bað Silju Dögg Gunnarsdóttur að svara eftifrandi spurningu.
Hver er staðan hér í Suðurkjördæmi hjá Framsóknarflokknum?
Það hefur auðvitað ekki farið fram hjá neinum að mikil ólga hefur verið innan flokksins frá því að Panama-málið komi upp vorið 2016. Það mál varð til þess að þingflokkur Framsóknarflokksin óskaði eftir því við þáverandi varaformann, Sigurð Inga Jóhannsson, að hann tæki við sem forsætisráðherra þar sem þáverandi formaður naut ekki lengur trausts og stuðnings meirihluta þingflokksins. Málin þróuðust á þann veg að Sigurður Ingi Jóhannsson var kjörinn formaður Framsóknarflokksins á flokksþingi um haustið. Sumir voru ósáttir við þau úrslit og Sigmundur Davíð kaus að starfa ekki með þingflokknum eftir kosningar.
Uppgjör eru stundum nauðsynleg
Það er leiðinlegt og oft sársaukafullt þegar samherjar ákveða að yfirgefa flokkinn, en ég óska þeim alls hins besta og virði þeirra ákvörðun. Úrsögn Sigmundar Davíðs er blóðtaka fyrir flokkinn þar sem hann á sér marga dygga stuðningsmenn um land allt. Einhverjir hafa kosið að fylgja honum úr flokknum en aðrir hafa ákveðið að skrá sig aftur í Framsóknarflokkinn eftir úrsögn Sigmundar. Þessi atburðir koma í raun ekki á óvart og voru kannski óumflýjanlegir. Uppgjör eru í eðli sínu sársaukafull en oft nauðsynleg.
Sækjum fram
En nú er kosningabaráttan hafin og tími kominn til að horfa fram á við. Tala um pólitík – fyrir hvað við Framsóknarfólk stöndum, hin góðu gildi flokksins okkar og hvað við viljum gera þjóðinni til heilla, fáum við til þess umboð í næstu kosningum. Flokkurinn er rótgróinn og reynslumikill, ábyrgt, traust og umfram allt lýðræðislegt stjórnmálaafl.
Samstaða, kraftur og bjartsýni
Þegar þetta er skrifað þá er ég nýkomin af kjördæmisþingi í Suðurkjördæmi. Þar sem skammt er liðið frá síðustu Alþingiskosningum og ólga innan flokksins, þá bjóst ég ekki endilega við góðri mætingu á mánudagskvöldi, ef ég á að vera alveg hreinskilin. En þar skjátlaðist mér. Húsfyllir varð. Framsóknarfólk ætlar að þétta raðirnar fyrir næstu kosningabaráttu. Maður fann fyrir kraftinum og bjartsýninni og við erum sannfærð um að við höfum margt gott fram að færa. Við teljum að okkar hófsama miðjustefna sem einkennist af félagshyggju, framsýni og skynsemi, sé einmitt það sem þjóðin þarf á að halda.