Smári McCarty þingmaður Pírata skrifar:
Nú eru að koma kosningar. Aftur. Það verða allskonar loforð í allskonar málaflokkum. Aftur. Málefnahrúgan verður stór. Eins og alltaf.
Ofarlega á baugi verða húsnæðismál. Það vantar í það minnsta 8000 íbúðir á Íslandi; það liggur við neyðarástandi á húsnæðismarkaði. Það verður líka talað mikið um launakjör og tekjur, ekki síst í ljósi komandi kjarasamninga. Eðlilegast væri að hækka persónuafslátt, og lækka þar með skatta á almenning. Það vantar líka meiri slagkraft í uppbyggingu á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðum, og lyfin mættu vera ódýrari. Það vantar líka peninga í samgöngur, það vantar að skapa frið um sjávarútveginn, og það vantar að eiga gott samtal um framtíð landbúnaðar.
Kosningarnar munu því snúast um fullt af góðum og gildum málefnum, en að mjög litlu leyti um það sem þær ættu að snúast um.
Það er nefnilega þannig að nú hefur enn ein ríkisstjórnin hrunið. Einhverjir vilja kenna fólki um, segja að Bjarni Benediktsson sé svo slæmur eða að Björt Framtíð sé svo óáreiðanlegur flokkur. En það er ekki vandamálið. Vandamálið er að tortryggni og vantraust í stjórnkerfinu er orðin skemmandi. Það liggur á að klára vinnu við að laga það sem er að í stjórnkerfi landsins, og byggja upp traust að nýju. En sú vinna fær aldrei að klárast. Á meðan minnkar traustið, reiðin eykst, og stóru vandamálin í samfélaginu verða stærri því það er ekki hægt að sinna þeim almennilega.
Þetta er eins og það væri komið stórt gat á þjóðarskútuna og við reynum að laga það með því að skipta stöðugt um skipstjóra. Það sem við þurfum fyrst og fremst eru viðgerðir og björgunaraðgerðir. Og jú, nýjan skipstjóra, en ekki bara það.
Við þurfum að skapa stöðugleika á Íslandi. Ekki þann gervistöðugleika sem við höfum búið við áratugum saman, þar sem gengið sveiflast villt og galið og það er aldrei nema korter í næsta hrun ─ ef ekki hrun hagkerfisins þá hrun ríkisstjórnarinnar. Nei, við þurfum pólitískan stöðugleika, þar sem ábyrgð er tekin á því að gera hlutina, að gera þá vel, og að gera þá í góðri sátt. Þar sem hagsmunir almennings ganga alltaf fyrir.
Ef við náum því, þá verður auðveldara að takast á við öll þau málefni sem brenna á samfélaginu. En þangað til að stjórnmálamenningin breytist verður reglulega að setja alla uppbyggingu á ís meðan næstu kosningar eru haldnar.
Framtíðin okkar á að vera betri en svo. Ísland er ríkt land á alla vegu, en stjórnkerfið okkar endurspeglar það ekki. Við eigum að geta upprætt fátækt, hýst alla vel, haldið uppi fyrsta flokks velferðarkerfi og fyrsta flokks hagkerfi. Þannig framtíð eigum við að skapa. Sköpum hana saman.