Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins seldi allar eignir sínar í Sjóði 9 hjá Glitni dagana 2. til 6. október 2008. Fram kemur í ítarlegri frétt Guardian, Reykjavík Media og Stundarinnar í dag að Bjarni, sem þá var þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafi setið fundi um alvarlega stöðu bankakerfisins á þessum tíma og hafi svo selt bréf virði 50 milljónum króna rétt fyrir hrun. Alls mun Bjarni hafa selt bréf í Glitni fyrir rúmlega 120 milljónir króna eftir að hafa fundað með Lárusi Welding bankastjóra Glitnis.
Daginn sem neyðarlögin voru sett, 6. október 2008 , mun Bjarni hafa deilt upplýsingum um störf Fjármálaeftirlitsins til framkvæmdastjóra hjá Glitni. Einar Örn Ólafsson, framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs Glitnis og vinur Bjarna Benediktssonar, sagði í tölvupósti til Atla Rafns Björnssonar, aðstoðarmanns Lárusar Weldings bankastjóra Glitnis, þann 6. október 2008 klukkan 14:15:
Bjarni ben segir að … fme séu á skrilljón að vinna í þessu núna … einhver að tala við Jónas?
Er líklega verið að vísa til Jónasar Fr. Jónssonar sem var forstjóri Fjármálaeftirlitsins á þessum tíma.
Bjarni þvertekur fyrir að hafa búið yfir innherjaupplýsingum á þessum tíma, segir hann við blaðamann Guardian að búið sé að rannsaka sölur hans úr Sjóði 9 og ekkert hafi komið úr því:
Allir skynsamir fjárfestar hefðu verið að íhuga að selja á þesum tíma.
Fjallað er um málið á vef Guardian í dag, þar kemur fram að Bjarni hafi ekki brotið nein lög en gögnin sem lekið var sýni fram á náin tengsl valdamikilla stjórnmálamanna á Íslandi við stjórnendur í viðskiptalífinu.