fbpx
Föstudagur 18.júlí 2025
Eyjan

Hættuleg hagstjórn

Ari Brynjólfsson
Fimmtudaginn 5. október 2017 15:11

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jóna Sólveig Elínardóttir, varaformaður og oddviti Viðreisnar í Suðurkjördæmi.

Jóna Sólveig Elínardóttir skrifar:

Brennt barn forðast eldinn en kerfisvörsluflokkarnir virðast þó ekki ætla að læra af áratugalangri hagstjórnarreynslu sinni. Heitur átrúnaður þeirra á íslensku krónuna, sem veldur tekjutapi upp á hundruð þúsunda króna ár hvert hjá hverri einustu meðalfjölskyldu á Íslandi, byrgir þeim sýn. Líkt og með flest önnur ofsatrúarbrögð er slík rörsýn hættuleg. Hættan birtist í þeirri sögulegu staðreynd að með reglubundnum hætti brennur bæði sparnaður fólks og eignir upp á krónubáli. Krónurnar missa verðgildi sitt og eignirnar sem fólk hefur greitt margfalt fyrir vegna þeirra háu vaxta sem af krónunni hljótast, fuðra upp líka.

Hagsmunir millistéttar og eldri borgara í húfi

Ofan á þessa hættulegu krónuhagstjórn vill vinstri kerfisvörsluflokkurinn síðan smyrja tugmilljarða króna auknum álögum á íslenskan almenning í formi skatta. Þeir sem halda að „ríka fólkið“ sé að fara að greiða alla þessa skatta skulu athuga málið vel. Ég hef sjálf hvergi séð útreikninga sem sanna að slík skattheimta muni skila þeim 50-75 milljörðum sem vinstri menn vilja fá í auknar skatttekjur á hverju ári. Álögurnar munu alltaf fyrst og fremst koma niður á íslensku millistéttinni og eldri borgurum!

Þær skattahækkanir munu aftur leiða til þess að sú kaupmáttaraukning sem orðið hefur mun hverfa. Þegar það gerist mun launafólk eðlilega fara fram á að fá hærri laun í kjarasamningum í þeirri von að ná sama kaupmætti aftur. Því miður sýnir sagan okkur að í kjölfarið mun verðbólgan fara á skrið og launahækkanirnar brenna upp. Þetta hljómar kannski kunnuglega en það er vegna þess að við erum búin að ganga í gegnum nákvæmlega þetta svo oft og ítrekað. Allt í boði íslensku krónunnar og erindreka hennar.

Fordæmi 36 smáríkja

Nú er mál að linni. Íslenskur almenningur á heimtingu á ábyrgri hagstjórn með öflugum gjaldmiðli. Viðreisn er eini flokkurinn sem leggur fram raunhæfar lausnir í þessum efnum, þ.e. að festa íslensku krónuna við stöðugan gjaldmiðil – líkt og 36 önnur smáríki hafa gert með góðum árangri – til að koma í veg fyrir sveiflurnar sem valda þeim óstöðugleika sem ég lýsti hér að ofan. Ísland er eina landið með færri en 2 milljónir íbúa sem velur fljótandi örmynt. Það segir sína sögu.

Óbreytt ástand er val, en það er sannarlega hægt að breyta þessu. Viðreisn hefur bolmagnið til að leiða slíkar breytingar en til þess þarf hún þinn stuðning!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sakar stjórnarandstöðuna um vanþekkingu og rekur sögu 71. gr.

Sakar stjórnarandstöðuna um vanþekkingu og rekur sögu 71. gr.
Eyjan
Fyrir 6 dögum

„Fullorðið fólk þarf að kunna að taka tapi í kosningum og una öðrum að fara með völdin“

„Fullorðið fólk þarf að kunna að taka tapi í kosningum og una öðrum að fara með völdin“